Sigurður Ólafsson kennari er látinn
Sigurður Ólafsson menntaskólakennari lést mánudaginn 1. desember. Hann var 74 ára.
Sigurður fæddist í Reykjavík 29. september 1951. Foreldrar hans voru Ólafur Sigurðsson, yfirlæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri, og Anna Soffía Björnsdóttir húsmóðir. Systir Sigurðar er Halldóra geðlæknir, f. 1948, og hálfsystir samfeðra var Ragnheiður, læknir og meinafræðingur, f. 1947, d. 2025.
Sigurður ólst upp á Akureyri og gekk í Menntaskólann á Akureyri, þar sem Sigurður Guðmundsson, föðurafi hans, var lengi skólameistari. Að loknu stúdentsprófi 1971 nam Sigurður heimspeki og þjóðfélagsfræði við Háskóla Íslands í tvo vetur en flutti eftir það til Árósa í Danmörku, þar sem hann bjó í 16 ár. Þar lærði hann heimspeki og hugmyndasögu við Árósaháskóla, lauk BA-prófi 1980 og cand.phil. árið 1981.
Eftir nám stundaði Sigurður ýmis störf í Danmörku en flutti aftur til Íslands árið 1989. Hann hóf þá störf við nýstofnaðan framhaldsskóla á Húsavík og kenndi þar til 1994. Þá var Sigurður ráðinn til Menntaskólans á Akureyri, þar sem hann kenndi heimspeki og sögu til starfsloka 2018. Jafnframt kenndi hann listasögu við Háskólann á Akureyri.
Fyrri eiginkona Sigurðar var Hanne Frøkjær Knudsen sjúkraþjálfari, f. 1948. Börn þeirra eru Mira Jang, f. 1981, og Ólafur Kim matreiðslumaður, f. 1988. Fyrir átti Sigurður dótturina Matthildi, fæðinga- og kvensjúkdómalækni, f. 1972. Barnsmóðir hans er Ingibjörg Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 1951.
Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Klara Sigríður Sigurðardóttir fv. skrifstofumaður, f. 1952. Börn hennar eru Linda Hrönn Kristjánsdóttir hönnuður, f. 1971, Lis Ruth Klörudóttir verkefnastjóri, f. 1979, og Nína Kjartansdóttir þroskaþjálfi, f. 1983. Barnabörnin eru níu.