Fara í efni
Menning

ÓraVídd Sigurðar Árna á Kjarvalsstöðum

ÓraVídd Sigurðar Árna á Kjarvalsstöðum

Það hefur verið gaman að fylgjast með ferli Sigurðar Árna Sigurðssonar. Ég man eftir skörpu, leitandi augnaráðinu þegar hann var unglingur í skóla hjá mér fyrir norðan og það var erfitt að sjá hvaða braut hann veldi sér í sköpun sinni. Hann byrjaði í Myndlistaskólanum á Akureyri, fór þaðan í MHÍ og þaðan lá leiðin til Parísar, þar sem hann nam við merka listaháskóla. Og margt gerðist á þeirri leið. Ekki síst það að hann gekk lengra og lengra í að vinna með form og ljós og skugga og niðurstaðan varð og er enn eitthvað allt annað, eða að minnsta kosti öðruvísi en aðrir eru að fást við. Verkin hans vekja upp spurningar og áhorfandinn stendur stundum á rótagati – hvað er eiginlega um að vera hér? Samt er þetta allt svo ótrúlega nærtækt, þegar að er gáð. Og nýjust er spurningin: Hvað er á bak við myndina?

Á sýningunni ÓraVídd á Kjarvalsstöðum er úrval verka Sigurðar frá ýmsum tímum, mest málverk og skuggarnir eru þar í aðalhlutverki, alls kyns garðar og tré, en líka verk frá fyrri tímum og jafnvel hreinar skuggamyndir, en auk þess skissur og verk þar sem hann vinnur saman ljósmyndir og teikningar, ekki ósvipað því sem Þorvaldur vinur okkar gerði á sínum tíma. Svo eru þarna þessir frábæru og heillandi málmskúlptúrar og skuggarnir af þeim. Nýjustu verkin eru svo blindrammar í gegnsæju plexigleri og auðvitað skuggarnir af þeim.

Það var skemmtilegt að sjá sumt af þessum verkum í París á heimili Laufeyjar Helgadóttur og Bernard Ropa í apríl 2017 og líka sýninguna Hreyfðir fletir í Listasafninu á Akureyri 2018, en ÓraVídd nær yfir lengra svið í listsköpun Sigurðar. Sýningin var sett upp í október á þessu ári og því miður hefur faraldurinn haft áhrif á það, en núna er opið, og samkvæmt nýjustu fréttum hefur sýningartíminn verið framlengdur til 14. mars. Ég vona að fólk gefi sér tíma til að fara og skoða þessa frábæru sýningu. Á því verður enginn svikinn.

Sverrir Páll

Tvö verk Sigurðar Árna Sigurðssonar á Kjarvalsstöðum.

Að ofan: Sigurður Árni Sigurðsson við opnun sýningarinnar á Kjarvalsstöðum 19. nóvember. Ljósmynd: Einar Falur Ingólfsson.