Fara í efni
Fréttir

Sigmundur Sigfússon geðlæknir látinn

Sigmundur Sigfússon geðlæknir látinn

Sigmundur Sigfússon, fyrrverandi yfirlæknir geðlækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, er látinn 75 ára að aldri. Hann fæddist í Reykjavík 26. júlí 1945 en lést á heimili sínu á Akureyri 29. janúar síðastliðinn.

Sigmundur ólst upp í Reykjavík, lauk stúdentsprófi frá MR 1965, og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1972. Hann stundaði sérnám í geðlækningum í Osló 1974 til 1978, en þá var nýlega hafin í Noregi nútímavæðing þjónustu við geðsjúka. Eftir Noregsdvölina gegndi Sigmundur starfi aðstoðarlandlæknis í tvö ár.

Frá haustinu 1980 vann hann við að móta meðferðarstarf á nýrri geðdeild Landspítala 32C og árið 1984 gerðist hann yfirlæknir geðlækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þar var fyrir Brynjólfur Ingvarsson geðlæknir, sem líkt og Sigmundur var hallur undir þær stefnur í geðlækningum sem kenndar eru við samfélagslækningar og viðtalsmeðferð. Þeir félagar skiptu með sér bráðavöktum og skipulögðu og stunduðu meðferðarstörf á nýrri legudeild fyrir geðsjúka, sem opnuð var fullbúin og fullmönnuð á FSA 1986. Þar var fitjað upp á ýmsum nýjungum, svo sem sérkennslu fyrir valda sjúklinga með sáralitla grunnskólamenntun, og áfallaúrvinnslu með fjölskyldum og hópum hjálparaðila og vinnufélaga.

Sigmundur var ráðgjafi landlæknis til 1998 og átti fyrir atbeina þess embættis sæti í ýmsum stjórnskipuðum nefndum. Stundakennari var hann við heilbrigðisdeild Háskólans Akureyri 1988 til 2015. Eftir starfslok á geðdeild sjúkrahússins á Akureyri vorið 2016 rak Sigmundur mánaðarlega geðlæknismóttöku við Heilsugæslustöðina á Egilsstöðum til ársloka 2018.

Ein helsta tómstundaiðja Sigmundar á Akureyri var söngur, m.a. í Passíukórnum og Kammerkórnum Hymnodíu.

Foreldrar Sigmundar voru Anna Guðrún Frímannsdóttir húsmóðir og saumakona, f. 20. apríl 1912 á Hamri á Þelamörk, d. 9.október 1995, og Sigfús Björgvin Sigmundsson barnakennari, f. 11. apríl 1905 í Gunnhildargerði í Hróarstungu, d. 14. janúar 1990.

Fyrri eiginkona Sigmundar var Ingibjörg Benediktsdóttir. Þau giftu sig 1973 en skildu 1999. Ingibjörg lést 2007. Þau eignuðust fjóra syni, Marjón Pétur, Sigfús Þór, Benedikt og Harald.

Eftirlifandi eiginkona Sigmundar er Ingiríður Sigurðardóttir. Þau gengu í hjónaband árið 2000 og stofnuðu heimili að Kringlumýri 3 á Akureyri. Dóttir Ingiríðar er Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir.

Sigmundur verður jarðsunginn 22. febrúar frá Akureyrarkirkju.