Fara í efni
Menning

Síðbarokk og íslensk nútímatónlist

Eyþór Ingi Jónsson organisti. Ljósmynd: Daníel Starrason.
Eyþór Ingi Jónsson organisti. Ljósmynd: Daníel Starrason.

Eyþór Ingi Jónsson, organisti í Akureyrarkirkju, sendi í vikunni frá sér fyrstu sólóplötuna, þar sem hann leikur bæði verk tónskálda frá síðbarokk tímanum og verk íslenskra nútímatónskálda.

Plötuna kallar Eyþór Ingi Septim, sem merkir sjöund.

Hann hefur leikið inn á fjölda platna og oft stjórnað tónlistarfólki við upptökur, en platan er sú fyrsta þar sem Eyþór Ingi spilar einn. Verkin lék hann öll á pípuorgel Akureyrarkirkju.

„Það hefur verið á dagskrá hjá mér í 10 til 15 ár að gera svona plötu og á þeim tíma hefur hugmyndin þroskast. Mig langaði að vinna með tölur; tónskáld á barokktímanum léku sér oft með tölur og földu þær jafnvel í verkum sínum,“ segir listamaðurinn við Akureyri.net.

Eyþór Ingi segist hafa mjög gaman af talnaspeki í tónlist, einnig speglun og krosstáknum, sem séu önnur einkenni plötunnar. „Ég hef gaman af því að láta efnisskrána speglast, eins og hún gerir í raun á diskinum – og Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir notar líka speglun í plötuumslaginu sem hún hannaði og ég er ofboðslega ánægður með.“

Eitt verkanna á plötunni er Húm eftir Atla Örvarsson. „Það er óvenjulegt verk frá Atla. Hann felur töluna 7 mikið í verkinu; mörg stefin eru til dæmis 7 tóna. Ég veit ekki hvort þetta er viljandi gert, en ég frétti þegar platan var komin í framleiðslu að Atli er fæddur 7. 7. 1970!“

Það var kammerkórinn Hymnodia, sem Eyþór Ingi stjórnar, sem frumflutti Húm á sínum tíma sem sönglag. Seinna tók Atli lagið upp með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og á plötunni Septim leikur Eyþór lagið yfir tölvuunnar upptökur; ofan í tölvuhljóð.

Þegar kom að því að velja tónlist á plötuna komu aðeins til greina verk sem er í uppáhaldi hjá Eyþór Inga. „Þetta byrjar þannig að ég vel verk sem mér finnst ofboðslega falleg,“  segir hann. Á plötunni eru verk eftir Johann Sebastian Bach, Dieterich Buxtehunde, Atla Örvarsson, sem fyrr segir, Gísla Jóhann Grétarsson, Magnús Blöndal Jóhannsson.

„Ég ákvað að fara þá leið að gefa út geisladisk, það er hverfandi miðill en er samt enn mikið í klassíkinni og ég kaupa þónokkuð af geisladiskum sjálfur. Ég veit að margir vilja fá bækling og hlusta á tónlistina í gegnum geisladrif.“