Fara í efni
Fréttir

Síðasti dagurinn í suðausturendanum

Markús Gústafsson, einn eigenda AKINN, Tómas Leifsson, bensínafgreiðslumaður, Ólympíufari og eftirlaunaþegi frá og með morgundeginum, og Ari Gunnar Óskarsson, sem starfað hefur við Hörgárbrautina frá 1998. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Félagarnir Ari Gunnar Óskarsson og Tómas Leifsson mættu til vinnu á bensínstöð Orkunnar við Hörgárbraut í morgun eins og marga aðra morgna. Ari hefur unnið á þessum stað, hjá nokkrum vinnuveitendum, frá 1998, en var áður í tvö ár hjá Skeljungi í Reykjavík. Tommi hefur ekki verið þarna eins lengi. Báðir eru þeir þekktir fyrir einstaka þjónustulund við viðskiptavini stöðvarinnar.

En dagurinn var óvenjulegur því þetta var síðasti rekstrardagur þjónustuverslunarinnar í suðausturenda hússins. Ari Gunnar heldur áfram að starfa hjá fyrirtækinu enda nógu að sinna í kringum rekstur bensínstöðvanna þó versluninni hafi verið lokað. Tómas var hins vegar að ljúka starfsferlinum ef þannig má orða það. Þetta var síðasti vinnudagurinn hans áður en hann fer á eftirlaun. Líklegt að ferðunum í fjallið fjölgi jafnvel í kjölfarið, ef það snjóar eitthvað.


Ari Gunnar Óskarsson læsir versluninni í síðasta skipti núna kl. 18 í kvöld. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Akureyri.net kíkti til þeirra í morgun í létt spjall um lífið og tilveruna, starfið á bensínstöðinni, áhugamálin og fleira. Gestum og gangandi var boðið konfekt og spjall. Við kynnumst Ara og Tomma betur hér á Akureyri.net síðar.

Reksturinn breyst gríðarlega

Markús Gústafsson, einn eigendanna, skrifaði stuttan pistil á Facebook í morgun þar sem hann rekur breytingarnar. Hann og félagar hans keyptu AKINN árið 2012 og tóku þá samhliða að sér rekstur á bensínstöðinni. Slíkur rekstur hefur hins vegar breyst gríðarlega á undanförnum árum og dagurinn í dag sá síðasti í rekstri verslunarinnar í öðrum enda hússins. Reksturinn stóð einfaldlega ekki undir sér að sögn Markúsar. Hann nefnir einnig að einhverjir hafi verið fúlir yfir að búið sé að loka þvottaplaninu og segir að sutt sé í að öllum þvottaplönum verði lokað því það fyrirkomulag að hver sem er geti komið og þvegið bílinn sinn frítt sé alveg galið.


Sjö 400kw hleðslustöðvum hefur verið komið upp auk einnar minni og mun þetta vera stærsti og öflugasti hleðslukjarninn utan suðvesturhornsins. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Eldsneytistankarnir eru ekki að fara neitt og auðvitað verður áfram hægt að kaupa eldsneyti í sjálfsafgreiðslu og AKINN rekið áfram með óbreyttum hætti í hinum endanum. Þvottaplanið hefur líka fengið nýtt hlutverk og þar er nú komin upp hraðhleðslustöð. „Mikil gróska er í uppbyggingu rafhleðslustöðva á Akureyri þessa dagana enda fjölgar rafbílum heimamanna semog aðkomumanna hratt,“ skrifar Markús. „Nýjasta viðbótin er glænýr hleðslustöðvakjarni Orkunnar við Hörgárbraut en þar munu rafbílaeigendur geta hlaðið bíla sína við þjóðveg 1 þar sem sjö 400kw hleðslustöðvum hefur verið komið upp auk einnar minni.“ Þetta mun vera stærsti og öflugasti hleðslukjarninn utan suðvesturhornsins.


Áfram getur fólk fengið bensín, borgara og fleira við Hörgárbrautina, bara ekki brugðið sér inn í kaffibolla og spjall við Ara og Tomma. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Ósk um stækkun lóðar hafnað

Ekki ganga þó öll áform Orkunnar eftir því skipulagsráð Akureyrarbæjar hafnaði í gær erindi Ómars Ívarssonar hjá Landslagi frá 24. nóvember, fyrir hönd Orkunnar ehf., þar sem óskað er eftir stækkun lóðarinnar til norðurs um 25 metra, alls um 2.200 fermetra. Áform Orkunnar með umsókninni voru að byggja bílaþvottastöð og vetnisstöð til áfyllingar fyrir vetnisbíla. Fyrirhuguð vetnisstöð er hluti af áætlunum Orkunnar að byggja upp innviði í tengslum við orkuskipti á Íslandi.

Skipulagsráð hafnaði erindinu á þeim forsendum að á þessu svæði sé samkvæmt deiliskipulagi lóð fyrir verslun og þjónustu með umtalsverðu byggingarmagni. Gert er ráð fyrir að lóðin verði auglýst á næstu dögum.