Fara í efni
Fréttir

Séra Hildur Eir sér um stuðningshóp Píeta

Í haust fara Píeta samtökin af stað með stuðningshóp í Akureyrarkirkju fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.
 
„Jafningjastuðningur hefur margsannað sig þegar kemur að áföllum og sorgum lífsins. Það er eitthvað sérstakt sem gerist þegar fólk deilir reynslu og treystir hvert öðru fyrir eigin hugsunum og líðan þó ekki sé nema það að þoka einsemdarinnar hverfur,“ segir í tilkynningunni. 
 
„Það er svo merkilegt hvað traust og samlíðan gerir mikið fyrir okkar sárustu reynslu og tilfinningar. Í svona starfi eru gæðin fyrst og fremst fólgin í tjáningu og hlustun en þá er líka dýrmætt að hafa reyndan hópstjóra sem heldur utan um stundina. Séra Hildur Eir Bolladóttir mun taka það hlutverk að sér.“
 
Hópurinn mun hittast annan mánudag í mánuði í kapellu Akureyrarkirkju og hefst samveran klukkan 20:00. Fyrsta samvera er 8. september næskomandi og skráning fer fram á fésbókarviðburði sem er að finna hér: https://fb.me/e/7z1LOMcag