Fara í efni
Menning

Seldi sína fyrstu mynd 12 ára gamall

Ólafur Sveinsson listamaður á vinnustofu sinni. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Sumir hafa kallað mig fjöllistamann, en ég hef samt aldrei farið í sirkus,“ segir Ólafur Sveinsson, aðspurður um hvað skuli titla hann í viðtali. Að velja sér titil getur verið vandasamt, en Ólafur er einn af þeim sem hefur marga mismunandi hatta. Hann er menntaður myndlistamaður, hefur starfað sem kennari, leiðsögumaður, landvörður og fleira. Um þessar mundir er Ólafur þó helst myndlistamaður, en hann opnar nýja sýningu verka sinna á Amtsbókasafninu í dag, föstudaginn 29. ágúst kl. 16. Blaðamaður Akureyri.net heimsótti Ólaf á vinnustofu sinni við Kaupvangsstræti 4 í ágúst, þegar hann var að undirbúa verkin á sýninguna.

Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Ólaf, sá seinni birtist á Akureyri.net á morgun:

  • Á MORGUN – LISTSKÖPUN FYLGIR ÓLAFI HVERT FÓTMÁL


„Pabbi minn, Sveinn Ólafsson, var myndskeri og ég var mikið á verkstæðinu hjá honum þegar ég var krakki,“ rifjar Ólafur upp. „Hann sagði að ég hefði fæðst með blýantinn í höndunum, en mamma var reyndar ekki sammála því. Hún kannaðist ekki við að ég hefði verið með neitt í höndnum þegar ég kom í heiminn.“ Sveinn, pabbi Ólafs, var einn af fáum menntuðum myndskerum landsins.

Sterk tenging við náttúruna

Foreldrar Ólafs voru landsbyggðarfólk, pabbi hans var frá Rauðasandi og mamma hans, Jóna Gíslunn Árnadóttir var frá Holtsmúla í Landsveit. Þau fluttu til Reykjavíkur á stríðsárunum, um 1940 eins og fleiri á þeim árum. Ólafur á tvær systur, en systkinin þrjú ólust upp í Reykjavík með foreldrum sínum. Þrátt fyrir borgaruppvöxtinn, þá var Ólafur mikið í sveit í Borgarfirðinum og flakkaði um hálendið með foreldrum sínum í skólafríum. Náttúra Íslands, plöntur og fuglar, hafa því verið honum hugleikin í gegnum tíðina og birst í sköpunarverkum hans í og með.

 

Náttúrutenging Ólafs birtist sterkt í þessari teikningu, sem má finna á nýju sýingunni hans á Amtinu. Mynd: RH

T.v. Sennilega elsta sjálfsmynd Ólafs sem hefur varðveist. T.h. Örlaganornir Evrópu. Akrýl á hör 60x60cm. Myndir: aðsendar

Foreldrunum leist ekki á listmannsframtíð

„Ég var alla mína hunds- og kattartíð að fylgjast með pabba mínum skapa,“ segir Ólafur. „En þegar ég svo ætlaði 16 ára að láta drauminn rætast, að verða listamaður sjálfur, þá sagði pabbi að ég ætti ekki að leggja listina fyrir mig af því að þá myndi ég þurfa að lepja dauðann úr skel. Hann hafði náð að lifa á þessu alla ævi, en myndskurður var í rauninni talin iðngrein.“ 

Ég átti svo mikið af verkum eftir sjálfan mig að ég skellti bara í sýningu

Ólafur fór í Menntaskólann í Hamrahlíð, en það setti hann aðeins út af laginu að fá þessi varnaðarorð frá föður sínum. Hann fór þó í inntökupróf í MHÍ (núverandi LHÍ, Listaháskóli Íslands) en endaði í menntaskólanum. „Ég flosnaði svolítið upp úr þessu námi og fór á flakk til þess að reyna að finna mig á einhvern hátt,“ segir Ólafur. „Ég fór til Mexíkó og flakkaði þar í 3 mánuði. Þar teiknaði ég mjög grimmt með kúlupenna og tjáði mig mikið í myndlist. Þegar ég var orðinn 19 ára, árið 1984 var ég búinn að vera heima í ár eftir Mexíkóferðina. Ég átti svo mikið af verkum eftir sjálfan mig að ég skellti bara í sýningu.“

 

Þó að myndlistin sé í aðalhlutverki á nýju sýningunni, eru ræturnar frá því að Ólafur var polli á vinnustofu pabba sterkar. Þjóðleg stef og fuglar eru áberandi á vinnustofu Ólafs. Mynd: RH

Byrjaði listasýningaferilinn á Mokkakaffi

Fyrsta myndlistasýning Ólafs var reyndar þegar hann var 15 ára gamall í Austurbæjarskóla, haldin í skólanum ásamt tveimur öðrum, en fyrsta einkasýningin var á Mokkakaffi. „Ég kynntist Guðmundi og Guðnýju á Mokkakaffi á þessum tíma og þeim leist vel á myndirnar mínar, þannig að ég fékk að sýna þar. Það kostaði ekkert að sýna, þau tóku ekkert fyrir að halda sýningar, en fengu að velja sér eina mynd frá listamanninum sem greiðslu. Það var einstakt að heimsækja þau og sjá listaverkasafnið sem þau höfðu eignast,“ segir Ólafur, en hann fékk jákvæða gagnrýni við þessari fyrstu sýningu sinni. Þarna sýndi hann mest dúkristur, einnig pennateikningar og nokkrar vatnslitamyndir.

Mér hefur alltaf þótt list vera eitthvað sem ætti að stunda eins óheft og hugsast getur, og óskrifaðar reglur kerfisins eða listaskólanna ættu ekki að setja neinar bremsur á það

„Ég var heillaður af hafinu þarna, kafaði í einhverja reykvíska rómantík með grásleppubátum við Ægisíðuna, til dæmis,“ segir Ólafur, þegar hann rifjar upp viðfangsefni þessarar tíðar í lífinu. Hann byrjaði ungur að vinna við grásleppuveiðar sjálfur, um 13 ára aldur. Svo var hann messagutti 14 ára á fraktara sem sigldi til Portúgal. Þrátt fyrir að yfir mörgum verka Ólafs sé ævintýralegur blær, og oft á tíðum abstrakt, þá gætir mikillar ástar á raunsæi og daglegu lífi manna. Stundum er klisjukennt að segja að ekkert sé einhverjum óviðkomandi - en þegar Ólafur á í hlut er það eiginlega orða sannast. 

 

Ólafur með óhlutbundin olíuverk. Mynd: aðsend

Eitthvað svo hversdagslegt eins og fatasnagi getur öðlast alveg nýtt líf í höndunum á Ólafi. Mynd: RH

Bannað að sýna of oft

Teikningin hefur verið órjúfanlegur tjáningarmáti Ólafs frá upphafi, en hann seldi sína fyrstu mynd 12 ára gamall og getur talist vera frekar afkastamikill listamaður, enda lítið getað lagt frá sér blýantinn eða önnur verkfæri til sköpunar. Eftir sýninguna á Mokka opnaðist fyrir flóðgáttir hjá Ólafi, og hann sýndi 5 sinnum fyrsta árið. „Þarna þótti sumum nóg um,“ rifjar hann upp. „Þetta mætti maður ekki, það ætti ekki að sýna svona oft og maður gæti einfaldlega ekki leyft sér það. Aðeins þrjár af þessum sýningum voru í Reykjavík, hinar úti á landi, en það gilti einu.“ 

„Rökin voru þau, að það gæti enginn unnið svona mikið og framleitt svona mikið af list,“ segir Ólafur. „Ég hef reyndar lesið mér til um marga listamenn og það er allur gangur á því. Mér finnst þetta algjör reginfirra, og svona skoðanir í raun hamlandi fyrir listafólk sem er afkastamikið. Mér hefur alltaf þótt list vera eitthvað sem ætti að stunda eins óheft og hugsast getur, og óskrifaðar reglur kerfisins eða listaskólanna ættu ekki að setja neinar bremsur á það.“

Ég hef til dæmis skipt á myndlistarverkum og mótorhjólum sautján sinnum!

Talandi um bremsur, þá keypti Ólafur sitt fyrsta mótorhjól 18 ára gamall, en tíð viðfangsefni í myndlist hans eru mótorhjól og bílar. „Þegar ég fékk mér mitt fyrsta hjól, þá langaði mig í eitthvað annað en allir voru að kaupa, og fann gamalt BSA hjól frá 1971. Ég hef svo tekið svolitlu ástfóstri við mótorhjól og á þónokkur gömul hjól. Ég hef til dæmis skipt á myndlistarverkum og mótorhjólum sautján sinnum! Bæði í lagi og ólagi, sem ég dundaði mér þá við að gera þau upp. Ég hugsa að þetta snúist meira um varðveislu en eitthvað annað.“ 

Það má segja að fjölmörg viðfangsefni Ólafs í daglegu lífi rati fljótt og örugglega á strigann eða í tréskurðinn. Listsköpunin er órjúfanlegur hluti af tilverunni. Í seinni hluta viðtalsins við Ólaf segir hann meðal annars frá því þegar hann bjó í Kaupmannahöfn og hrærðist í listalífinu þar.


Listamaðurinn Ólafur á veraldarvefnum:

Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Ólaf, sá seinni birtist á Akureyri.net á morgun:

  • Á MORGUN – LISTSKÖPUN FYLGIR ÓLAFI HVERT FÓTMÁL

 

T.v. Vatnslitamynd eftir Ólaf. T.h. Útilistaverk Alviðru í Dýrafirði eftir Ólaf. 187 cm arnar höfuðkúpa, höggvin og unnin með keðjusög í rafmagnsstaur. „Við drepum alla ernina á Íslandi á 1 ári ef við setjum vindmyllur á Vestfjörðum,“ segir listamaðurinn - en hann á sterkar rætur fyrir vestan og er mjög annt um verndun íslenskrar náttúru. Myndir: aðsendar.