Fara í efni
Íþróttir

Seiglusigur Þórs í sögulegum Fylkisleik

Francisco „Paco“ Del Aquilla var öflugur í fráköstunum að venju og næststigahæstur í Þórsliðinu. Mynd: Guðjón Andri Gylfason.

Karlalið Þórs í körfuknattleik fer í jólafrí með sigur í farteskinu, raunar tvo sigra í síðustu þremur leikjum. Þórsarar unnu seiglusigur á liði Fylkis í jöfnum og spennandi leik í gærkvöld, sögulegum leik þar sem viðureignin er sú fyrsta á milli þessara félaga í meistaraflokki í körfuknattleik. Munurinn var tíu stig þegar upp var staðið, 96-86.

Fyrri hálfleikurinn var meira og minna jafn, liðin skiptust á forystunni tvisvar í hvorum leikhluta og baráttuglaðir Fylkismenn voru ekkert á því að hleypa Þórsurum of langt frá sér. Forysta Þórsara varð mest sjö stig í fyrri hálfleiknum og sex stig hjá gestunum. Þórsarar unnu fyrsta leikhlutann með einu stigi, en Fylkismenn tóku það til baka í öðrum leikhluta. Staðan hnífjöfn eftir fyrri hálfleikinn, 48-48.

Axel Arnarsson skoraði 17 stig í sigri Þórs og Christian Caldwell 32 stig. Myndir: Gujón Andri Gylfason.

Leikurinn var áfram hnífjafn í seinni hálfleiknum, en Þórsarar tóku þó aðeins frumkvæðið þegar á leið. Mestu munaði um fráköstin þar sem Þórsarar höfðu yfirburði, tóku á endanum 57 fráköst á móti 33 fráköstum Fylkismanna og skoruðu mun fleiri stig í annarri tilraun en Fylkir. Leikurinn var þó áfram spennandi allt til enda því Fylkismenn börðust af krafti, keyrðu upp stemningu frá bekknum allan leikinn og gáfust aldrei upp. Þegar leið á fjórða leikhlutann var munruinn kominn niður í fimm stig, en Þórsarar náðu að halda gestunum frá og unnu að lokum tíu stiga sigur, 96-86.

  • Þór - Fylkir (25-24) (23-24) 48-48 (18-15) (30-23) 96-86

Christian Caldwell var öflugur í Þórsliðinu, skoraði 32 stig, tók 14 fráköst og átti sex stoðsendingar. Paco Del Aquilla kom næstur með 25 stig og tók 17 fráköst. Maxwell Joseph Kunnert skoraði 26 stig fyrir Fylki og Finnur Tómasson 24.

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Christian Caldwell 32/14/6 - 41 framlagspunktur
  • Paco Del Aquilla 25/17/4
  • Axel Arnarsson 17/3/5
  • Páll Nóel Hjálmarsson 6/5/1
  • Finnbogi Páll Benónýsson 6/1/0
  • Pétur Cariglia 4/7/3
  • Smári Jónsson 4/3/1
  • Arngrímur Friðrik Alfreðsson 2/2/0

Þór er í 10. sæti 1. deildarinnar þegar liðið hefur spilað 11 leiki af 22. Sigrarnir eru orðnir þrír, en Fylkir og Hamar eru í neðstu sætunum, hafa bæði unnið einn leik. KV er með þrjá sigra eins og Þór, en Vesturbæingar eiga leik til góða.

Tölfræði leiksins.

Staðan í deildinni.