Fara í efni
Fréttir

Securitas fjölgar starfsfólki á Akureyri

Jónas Björnsson útibússtjóri Securitas á Akureyri, til vinstri, og Ómar Svavarsson forstjóri fyrirtækisins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tveir af 15 starfsmönnum þjónustuvers Securitas eru nú með aðsetur á Akureyri eftir að ný starfsstöð versins var opnuð þar á dögunum. Á Akureyri eru nú 27 starfsmenn fyrirtækisins af rúmlega 500.

„Við erum að efla starfsstöðina hér á Akureyri og ekki sér fyrir endann á því,“ sagði Jónas Björnsson útibússtjóri Securitas við Akureyri.net. „Við erum með góðan stuðning stjórnar og eigenda fyrirtækisins um að efla starfsemina úti á landi.“

Auk starfsmannanna tveggja í þjónustuverinu er tveimur öðrum störfum „án staðsetningar“ sinnt í höfuðstað Norðurlands; einn starfsmaður á fjármálasviði er búsettur á Akureyri og annar á hugbúnaðarsviði.

Ómar Svavarsson forstjóri Securitas og fleiri úr yfirstjórn fyrirtækisins komu norður í síðustu viku þegar starfsstöð þjónustuversins var opnuð með pompi og prakt.