Fara í efni
Íþróttir

Sanngjarn sigur SA í fyrsta heimaleiknum

Magdalena Sulova gerði eitt mark fyrir SA í dag og átti eina stoðsendingu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Kvennalið SA í íshokkí vann nokkuð torsóttan en sanngjarnan sigur á liði SR í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Lokatölur urðu 3-1 eftir að gestirnir komust í 1-0 í fyrsta leikhluta.

Það var ekki fyrr en á lokamínútu fyrstu lotunnar sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. SR vann þá pökkinn, Gunnborg Petra Jóhannsdóttir og Ylfa Bjarnadóttir komust þá tvær á móti einum varnarmanni, Gunnborg sendi á Ylfu sem skoraði. 

SA sótti meira en gestirnir, en það var þó ekki fyrr en um miðja aðra lotuna sem þeim tókst loks að koma pökknum í markið og þá komu tvö mörk á stuttum tíma. Fyrst jafnaði Kolbrún Björnsdóttir í 1-1 eftir að hafa stolið pökknum af varnarmanni SR. SA var þá leikmanni færri á svellinu þar sem ein var í refsiboxinu. Rúmum tveimur mínútum síðar náði Silvía Rán Björgvinsdóttir forystunni fyrir SA.

SA var áfram með yfirhöndina, en sigurinn þó ekki öruggur því hlutirnir geta breyst hratt í hokkíinu og munurinn aðeins eitt mark. Það var svo ekki fyrr en rétt rúmum tveimur mínútum fyrir leikslok að Magdalena Sulova náði inn þriðja marki SA og sigrinum síðan siglt í höfn.

  • SA - SR 3-1 (0-1, 2-0, 1-0)

SA

Mörk/stoðsendingar: Magdalena Sulova 1/1, Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/1, Kolbrún Björnsdóttir 1/0, Sólrún Assa Arnardóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 17 (94,4%).
Refsimínútur: 8.

SR

Mörk/stoðsendingar: Ylfa Bjarnadóttir 1/0, Gunnborg Petra Jóhannsdóttir 0/1.
Varin skot: Julianna Thomson 30 (90,9%).
Refsimínútur: 2.

Að loknum tveimur umferðum er SA í efsta sætinu með sex stig, SR er með þrjú og Fjölnir án stiga.

Leikskýrslan

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsíns og þar má finna upptöku af leiknum - sjá hér - en hér að neðan er hægt að fara beint inn á öll mörk leiksins.

  • 0-1 – Ylfa Bjarnadóttir (19:09). Stoðsending: Gunnborg Petra Jóhannsdóttir.

Gunnborg Petra vann pökkinn inni í varnarsvæði SR eftir slaka sendingu innan SA-liðsins, skautaði fram, renndi pökknum til hliðar á Ylfu Bjarnadóttur sem skoraði. 

  • 1-1 – Kolbrún Björnsdóttir (27:53).  

SA-liðið var í sókn, einni færri þar sem ein þeirra var í refsiboxinu. Sólrún Assa Arnardóttir átti þá skot að marki eftir sendingu frá Kolbrúnu Björnsdóttur, sem var varið. SR-ingar unnu pökkinn, leikmenn SA stilltu sér upp í vörnina og SR-ingar lögðu af stað í sókn, en Kolbrún tók sénsinn, kom á móti og náði að stinga kylfunni í pökkinn og stela honum, skautaði í átt að markinu og skoraði. Vel gert hjá Kolbrúnu, en væntanlega svekkjandi fyrir SR-inga sem voru í yfirtölu að tapa pökknum upp við eigin varnarsvæði.

2-1 – Silvía Rán Björgvinsdóttir (29:50). Stoðsdending: Magdalena Sulova.

Annað mark SA var nokkuð skondið og raunar erfitt að sjá á upptökunni hvernig það gerðist. SA var þá í sókn, Silvía Rán fékk pökkinn frá Magdalenu, fór yfir til hægri og sendi pökkinn fyrir markið, en einhvern veginn endaði hann í markinu. Kolbrún Björnsdóttir var fyrir miðju marki og reyndi að ná til pökksins, Magdalena tilbúin við fjærstöngina, en markið skráð á Silvíu Rán þannig að einhvern veginn hefur sendingin ratað í markið.

3-1 – Magdalena Sulova (57:53). Stoðsendingar: Sólrún Assa Arnardóttir, Silvía Rán Björgvinsdóttir.

SA vinnur dómarakast inni í varnarsvæði SR. Pökkurinn berst út til Silvíu Ránar fyrir utan, hún sendir yfir til hægri á Evu Maríu Karvelsdóttur. Hún á sendingu á Magdalenu sem á skot að marki sem virðist vera varið, en síðan lekur pökkurinn yfir línuna. Stoðsending er skráð á Sólrúnu Össu sem var upp við mark SR, en ekki er að sjá að hún hafi komið við pökkinn, þannig að líklega ætti Eva María að fá fyrstu stoðsendingu og Silvía Rán aðra.