Fara í efni
Íþróttir

Sanngjarn sigur KA og mjög langþráður

Ólafur Gústafsson fagnar einu marka sinna í kvöld. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

KA sigraði Fram með fjögurra marka mun, 37:33, í KA-heimilinu í kvöld í Olís-deild Íslandsmótsins í handbolta. Staðan í hálfleik var 17:12.

Sigurinn var sanngjarn og ekki síður langþráður því  KA-strákarnir höfðu tapað  síðustu fjórum leikjum, eftir tvo sigra í byrjun móts. Þeir eru nú komnir með sex stig að loknum sjö leikjum og eru í áttunda sæti.

KA tók forystuna snemma leiks og hélt henni allan tímann; munurinn varð mestur sjö mörk, 21:14.

Miklu munaði fyrir KA að Ólafur Gústafsson gat tekið þátt í sóknarleiknum að einhverju ráði í fyrsta skipti í háa herrans tíð. Ólafur, sem hefur glímt við meiðsli nánast allar götur síðan hann gekk til liðs við KA fyrir síðustu leiktíð, gerði átta mörk í kvöld og skapaði átta tækifæri fyrir samherja sína. Hann var ógnandi og nærvera hans gerði það að verkum að auðveldara var að opna vörn Framara fyrir aðra.

Mörk KA: Ólafur Gústafsson 8, Óðinn Þór Ríkharðsson 7 (1 víti), Einar Rafn Eiðsson 6, Einar Birgir Stefánsson 4, Patrekur Stefánsson 3, Arnór Ísak Haddsson 2, Arnar Freyr Ársælsson 2, Jóhann Geir Sævarsson 2, Haraldur Bolli Heimisson 2 og Jón Heiðar Sigurðsson 1.

Bruno Bernat varði 12 skot (33%) og Nicholas Satchwell 1 (11%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Óðinn Þór Ríkharðsson gerði sjö mörk fyrir KA í kvöld. Hér er eitt þeirra um það bil að verða að veruleika.

Ólafur Gústafsson (11) þrumar að marki og boltinn söng í netinu.