Fara í efni
Íþróttir

Sannfærandi sigur KA í Hafnarfirði – MYNDIR

Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnar eftir að hann gerði fyrsta mark KA í Hafnarfirði í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA vann mjög sannfærandi sigur á FH í Hafnarfirði í dag í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. Lokatölur urðu 3:0 eftir að KA var 2:0 yfir í hálfleik. 

Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði fyrsta markið eftir tæpan hálftíma, Nökkvi Þeyr Þórisson það næsta úr vítaspyrnu þegar langt var liðið á hálfleikinn og bakvörðurinn Bryan Van Den Bogaert gulltryggði sigurinn með þriðja markinu undir lokin.

FH-ingar, sem hafa verið í miklu basli í sumar, byrjuðu ágætlega en náðu ekki að ógna marki KA að neinu gagni enda vörn Akureyringanna sterk. Eftir fyrsta markið efldust KA-menn og eftir það næsta voru þeir á grænni grein. Sjálfstraust FH-inga var fokið út í veður og vind. Í seinni hálfleik lögðu KA-menn áherslu á góða vörn, FH-ingar voru mikið með boltann en gestirnir þurftu þó aldrei að hafa verulegar áhyggjur; höfðu í raun öll ráð heimamanna í hendi sér og ógnuðu þeim með hröðum sóknum.

VIÐBÓT – seinna í kvöld urðu heldur betur óvænt úrslit í deildinni. Topplið Breiðabliks steinlá fyrir Stjörnunni í Garðabæ, 5:2 og Fram og Víkingur gerðu jafntefli 3:3. Þá vann KR rimmu við ÍBV 4:0 í Vesturbænum.

Staða efstu liða er nú þessi:

  • Breiðablik 16 leikir – 38 stig
  • Víkingur 15 leikir – 30 stig
  • KA 16 leikir – 30 stig
  • Stjarnan 16 leikir – 28 stig

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

_ _ _

HALLGRÍMUR BRÝTUR ÍSINN
Van Den Bogaert, vinstri bakvörður KA, fékk háa og langa sendingu fram kantinn og sendi boltann þegar í stað á Nökkva Þey sem lék inn á teig. Áður en Nökkvi fékk tækifæri til að skjóta kom Hallgrímur Mar Steingrímsson aðvífandi, boltInn lá betur fyrir honum og Húsvíkingurinn þrumaði með vinstri fæti í hornið fjær. Glæsilega gert. Þetta var á 25. mínútu.

_ _ _

11. MARK NÖKKVA
Daníel Hafsteinsson lék upp að endamörkum vinstra megin og sendi fyrir markið, Elfar Árni reyndi að ná til boltans á undan Gunnari Nielsen markverði alveg upp við endamörk þegar Guðmundur Kristjánsson braut klaufalega á honum; þetta hefði líklega verið kallaður mjaðmahnykkur á glímuvelli, og dómarinn benti umsvifalaust á vítapunktinn. Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði af miklu öryggi úr vítinu. Þetta var á 39. mínútu og markið það 11. sem Nökkvi gerir í deildinni í sumar.

_ _ _

FYRSTA MARK BOGAERTS
Eftir að KA-menn brutu sókn FH-inga á bak aftur brunaði Nökkvi Þeyr fram með boltann, langleiðina að vítateig FH, sendi á Daníel sem lék inn á teig en komst ekki í átt marki heldur snéri út á kanti, spyrnti boltanum til Bryan Van Den Bogaert fyrir utan teig og eftir laglegt þríhyrningsspil við Nökkva Þey komst belgíski bakvörðurinn inn á teig og skoraði af harðfylgi framhjá Gunnari markverði sem kom út á móti honum. Þetta var á 83. mínútu.

_ _ _

GÓÐUR STUÐNINGUR
Engu var líkara en KA-menn væru á heimavelli í Kaplakrikanum í dag. Stuðningsmenn þeirra voru miklu meira áberandi en Hafnfirðingar og sigrinum var fagnað vel að leik loknum.