Fara í efni
Íþróttir

Sandra skoraði ekki – fær þó fyrirsagnirnar!

Sandra María fagnar einu af þremur mörkum sínum ásamt nokkrum af lykilleikmönnum liðsins gegn Þrótti í Lengjubikarnum í vetur. Frá vinstri: Karen María Sigurgeirsdóttir, Margrét Árnadóttir, Sandra María, Hulda Ósk Jónsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir.

Sandra María Jessen hefur verið mikið í sviðljósinu og fengið fyrirsagnirnar í fjölmiðlum í vor og sumar og kannski ekki að undra því hún er langmarkahæst í Bestu deildinni, hefur skorað níu mörk í fimm leikjum. Hún brá þó út af venjunni í gær í bikarleik Þórs/KA gegn Tindastóli, átti tvær stoðsendingar, en skoraði ekki!

Sandra María skoraði átta fyrstu mörk liðsins í deildinni, allt þar til Ísfold Marý Sigtryggsdóttir skoraði annað mark liðsins í 2-1 útisigri á Víkingum. Bróðir Söndru Maríu, Jan Eric Jessen, vakti einnig athygli á því á Facebook eftir sigur Þórs/KA á Tindastóli í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar að þar til í gær hafði Sandra María skorað í öllum leikjum sem hún hafði spilað á árinu 2024. Leikirnir eru í Kjarnafæðimótinu, Lengjubikarnum, Bestu deildinni og Mjólkurbikarnum. Þó skal hafa í huga að leikir í Kjarnafæðimótinu eru ekki opinberir KSÍ leikir. Til viðbótar við listann yfir leikina með Þór/KA sem Jan Eric birti spilaði hún einn leik með Þór/KA2 í Kjarnafæðimótinu. Á heimasíðu félagsins, thorka.is, má finna umfjöllun um alla leiki liðsins þar sem einnig kemur fram hverjar áttu stoðsendingar í mörkum liðsins.

Svona líta tölurnar hjá Söndru Maríu út það sem af er ári

  • Kjarnafæðimótið: Sex mörk og ein stoðsending í fimm leikjum.
  • Lengjubikarinn: Níu mörk og fimm stoðsendingar í sex leikjum.
  • Besta deildin: Níu mörk og ein stoðsending í fimm leikjum.
  • Mjólkurbikarinn: Tvær stoðsendingar í einum leik.
  • Samtals: 24 mörk og níu stoðsendingar í 17 leikjum
  • Þrenna gegn Þrótti 2. mars í A-deild Lengjubikarsins
  • Ferna gegn FH 27. apríl í Bestu deildinni 

Sandra María er ekki nýbyrjuð að skora. Hún á félagsmetið hjá Þór/KA yfir flest mörk skoruð í efstu deild á Íslandi og er komin í 98 mörk. Í umfjöllun á thorka.is eftir sigurinn á Keflavík í fimmtu umferð Bestu deildarinnar er að auki bent á að hún skoraði eitt mark fyrir Slavia Prag í efstu deild í Tékklandi og tvö mörk með Bayer 04 Leverkusen í efstu deild í Þýskalandi og mörkin í efstu deildum því 101.