Fara í efni
Íþróttir

Sandra María skorar og skorar

Sandra María Jessen í sigurleiknum gegn Breiðabliki. Mynd: Þórir Tryggva.

Þegar öllum leikjum fjórðu umferðar Bestu deildar kvenna í knattspyrnu var lokið í gærkvöld kom í ljós að Þór/KA heldur toppsætinu sem þær settust í með sigrinum á Breiðabliki á mánudagskvöldið. Valur hefði getað farið á toppinn, en mistókst. Valsliðið mátti þola 2-0 tap í Garðabænum og fór því ekki upp fyrir Þór/KA. Í þeim leik var nokkuð sterkur Akureyrarvinkill því þar voru samtals fimm innfæddir Akureyringar, fyrrum leikmenn með Þór/KA, sem byrjuðu leikinn. Andrea Mist og Heiða Ragney með Stjörnunni, Anna Rakel, Arna Sif og Lillý Rut með Val.

En Akureyringarnir í Akureyrarliðinu hafa líka vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðuna í sumar, Sandra María Jessen alveg sérstaklega.


Sandra María Jessen ásamt liðsfélögum í Þór/KA á æfingu í Boganum. Þær kunna vel við sig þar. Aftari röð: Amalía Árnadóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Dominique Randle. Fremri röð: Sandra María, Harpa Jóhannsdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir.

Sandra María er í fantaformi, skorar í hverjum leik, leggur upp mörk, á þátt í sóknum sem skila mörkum og er ótrúlega mikilvæg fyrir liðið, fyrirmynd, fyrirliði og leiðtogi. Hún skoraði seinna markið í 2-0 sigri gegn Breiðabliki í gær og átti hreint frábæra sendingu á Huldu Ósk Jónsdóttur í fyrra markinu. Lýsendur leikja hafa líka tekið eftir því hve vel Sandra María og Hulda Ósk hafa náð saman í leikjum liðsins og gera andstæðingunum sífellt lífið leitt. Fyrra markið í sigrinum á Breiðabliki í fyrrakvöld, þegar Hulda Ósk skoraði eftir snilldarsendingu frá Söndru Maríu, var fyrsta mark liðsins í Bestu deildinni á þessu tímabili sem Sandra María skorar ekki - en auðvitað átti hún stoðsendinguna.

Sandra María hefur nú skorað fjögur mörk í fyrstu fjórum leikjum Þórs/KA í Bestu deildinni, eitt mark í hverjum leik. Ekki nóg með það heldur hefur hún skorað eitt eða fleiri mörk í öllum leikjum liðsins frá því að Jóhann Kristinn Gunnarsson tók við liðinu aftur sem þjálfari, nema einum. Hún skoraði ekki í undanúrslitaleik Lengjubikarsins gegn Breiðabliki, en það kom ekki að sök því Þór/KA vann leikinn með tveimur mörkum frá Tahnai Annis.

Þór/KA hóf leik í Kjarnafæðismótinu, æfingamóti liða á Norður- og Austurlandi, í desember. Lengjubikarinn hófst í febrúar og lauk með úrslitaleik 1. apríl. Fyrsti leikur liðsins í Bestu deildinni var í Garðabænum 26. apríl.

Tímabilið hjá Söndru Maríu í hnotskurn: