Fara í efni
Íþróttir

Sandra, Jakobína og Karen í landsliðshópum

Sandra María Jessen - Jakobína Hjörvarsdóttir - Karen María Sigurgeirsdóttir. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Sandra María Jessen hefur verið valin í A-landsliðið í knattspyrnu á nýjan leik, fyrir tvo leiki í Þjóðadeildinni síðar í mánuðinum. Jakobína Hjörvarsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir voru valdar í U23 landsliðið fyrir tvo æfingaleiki í Marokkó. Hvort tveggja var tilkynnt í dag.

Sandra María handleggsbrotnaði fyrr í sumar og missti þar af leiðandi af verkefnum landsliðsins í júlí. Hún lék frábærlega með Þór/KA þar meiðslin settu strik í reikninginn og hefur leikið vel síðan hún sneri aftur inn á völlinn. Valið kemur því ekki á óvart.

Keppni í Þjóðadeild kvenna í Evrópu hefst senn og er Ísland í riðli með Danmörku, Þýskalandi og Wales. Fyrstu tveir leikir Íslands eru,  gegn Wales 22. september á heimavelli og útileikur á móti Þýskalandi 26. september. 

Þess má geta að Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrrum fyrirliði Þórs/KA, er einnig í landsliðshópnum. Arna Sif leikur nú með Val.

Landslið U23 mætir Marokkó í tveimur æfingaleikjum í Rabat 22. og 25. september. Þórður Þórðarson, sem nýlega var ráðinn þjálfari liðsins, tilkynnti 20 leikmanna hóp í dag.  Þar eru bæði Jakobína og Karen María sem fyrr segir, og einnig María Catharina Ólafsdóttir Gros, fyrrverandi leikmaður Þórs/KA, sem nú er á mála hjá Fortuna Sittard í Hollandi.

Smellið hér til að sjá A-landsliðshópinn

Smellið hér til að sjá U23-landsliðshópinn