Fara í efni
Menning

Samtímadansverkið 'Hér á ég heima' frumsýnt í Hofi

Yuliana Palacios. Aðsend mynd

Í kvöld, 26. apríl, verður þverfaglega samtímadansverkið “Hér á ég heima” frumsýnt í svarta kassanum í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Höfundur verksins og flytjandi er dansarinn og danshöfundurinn Yuliana Palacios. Sýningarnar verða tvær, kl. 19.00 og 20.30. Uppselt er á seinni sýninguna, en einhverjir miðar lausir á þá fyrri.

Í fréttatilkynningu segir að verkið fjalli um áskoranir þess að festa rætur í nýju umhverfi og er óður til innflytjendasamfélagsins á Íslandi auk þess að innihalda krítík á kerfið sem nýir Íslendingar búa við undir ægivaldi Útlendingastofnunar. Yuliana hefur verið búsett á Íslandi síðan 2016 og þekkir vel þá erfiðleika sem stundum felast í flóknu aðlögunarferli á framandi stað. Frá því Yuliana settist að á Íslandi árið 2016 hefur hún unnið ötullega að eigin verkum, oft í samstarfi við aðra dansara og danshöfunda en einnig tónlistar- og myndlistarfólk.

Í dansverkinu er stuðst við ríkulega hljóðmynd auk íburðamikils vídeóverks sem gerir “Hér á ég heima” að sannkallaðri upplifun fyrir sjón og heyrn. Um búninga sjá tískuhúsið Rocinante í Oaxaca í Mexíkó, Fözz Stúdíó í Reykjavík og Ásta Guðmundsdóttir. Jón Haukur Unnarsson semur tónlist og gerir hljóðmynd en myndbandshluti verksins er eftir Yuliönu og Elvar Örn Egilsson.

Nánari upplýsingar um verkið má nálgast HÉR

Viðburður á facebook

Verkefnið er stutt af Sviðslistasjóði, Launasjóði listamanna og Verðandi.