Fara í efni
Menning

Sálmar og stúlka með eldspýtur

Á tónleikum í Akureyrarkirkju miðvikudaginn 10. nóvember klukkan 20.00 verða sungnir nokkrir sálmar eftir Hildigunni Rúnarsdóttur en meginverkið á dagskránni er tónverk bandaríska tónskáldsins David Lang, The little Match Girl Passion, sem eins og sjá má á heitinu er byggt á ævintýri H.C. Andersens Litlu stúlkunni með eldspýturnar. Tónlistin er að auki undir áhrifum Mattheusarpassíu Jóhanns Sebastians Bach.

Það eru Óperudagar sem standa að þessum tónleikum og þeir frumfluttu verk Langs að honum viðstöddum árið 2019, en taka það upp á ný í Fríkirkjunni í Reykjavík, á Selfossi og í Akureyrarkirkju. Flytjendur eru Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Guja Sandholt mezzózópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór og Oddur Arnþór Jónsson baritón.

Litla stúlkan hans Davids Lang hlaut Pulitzerverðlaunin árið 2008. Að sögn hans sjálfs ákvað hann að segja þessa sögu, sem í fljótu bragði virðist barnaævintýri en fjalli í raun um hættu og siðferði, og hafi víðari skírskotanir til samtímans. Stúlkan verður fyrir barsmíðum föður síns, reynir að bjarga sér með því að selja eldspýtur, enginn virðir hana viðlits og það verður hennar bani, en í þrautum hennar skín ævinlega ljós kristilegs hreinleika. Hann kallar verkið passíu litlu stúlkunnar, píslasögu, rétt eins og Bach orti sína Mattheusasrpassíu og áherslan er á þjáningu stúlkunnar.

Það verða sem sagt sálmar, ævintýri og píslasaga í kirkjunni miðvikudaginn 10. nóvember og miðar fást á tix.is.