Fara í efni
Fréttir

SAk nýtur meira trausts en aðrar stofnanir

Þrír starfsmanna SAk eftir að Covid göngudeildinni var komið á fót í haust. Hjúkrunarfræðingarnir Be…
Þrír starfsmanna SAk eftir að Covid göngudeildinni var komið á fót í haust. Hjúkrunarfræðingarnir Berglind Júlíusdóttir, verkefnastjóri Covid göngudeildar SAk, og Sigríður Sólveig Stefánsdóttir ásamt Pálma Óskarssyni yfirlækni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) nýtur mikils trausts meðal íbúa Norður- og Austurlands, samkvæmt nýrri þjónustukönnun Gallup, og raunar meira trausts en allar þær stofnanir sem Gallup mælir í þjóðarpúlsi sínum, að sögn Bjarna Jónassonar, forstjóra. Bjarni greinir frá þessu í pistli til starfsmanna sem birtist á heimasíðu stofnunarinnar í gær.

Forstjórinn segir að þegar mikið liggi við og reyni á „þá endurspeglast þau gildi sem liggja til grundvallar því starfi sem hér er unnið. „Kóvið“ og allt sem því hefur fylgt endurspeglar gildin okkar vel. Við leggjum áherslu á öryggi sjúklinga og starfsmanna með skýrum leiðbeiningum, viðeigandi hlífðarbúnaði, sóttvörnum, umhyggju og virðingu. Með samvinnu og samstiltu átaki settum við upp sérstaka legudeild, göngudeild og þverfaglegt viðbragðsteymi og lítum á þær áskoranir sem upp koma sem tækifæri til að sækja fram með nýjar leiðir til að veita þjónustu.

Það er því ánægjulegt að sjá niðurstöður úr könnun Gallup þar sem íbúar á Norður- og Austurlandi eru spurðir um traust til Sjúkrahússins á Akureyri og viðhorf til þjónustu þess. Skemmst er frá því að segja að 90% íbúanna bera mikið traust til Sjúkrahússins á Akureyri og 95% þeirra sem höfðu nýtt sér þjónustuna sl. 12 mánuði voru ánægðir með hana. Er þetta ívið betri niðurstaða en fyrir ári síðan þegar sama könnun var lögð fyrir. Þegar horft er til trausts stofnana sem Gallup mælir í þjóðarpúlsi sínum skorar Sjúkrahúsið á Akureyri hæst. Þetta er góður vitnisburður um það góða starf sem hér er unnið,“ segir Bjarni.

Birt er tafla sem sýnir hve mikils trausts ýmsar stofnanir njóta meðal þjóðarinnar – og eru þær tölur úr þjóðarpúlsi Gallup frá því í febrúar á þessu ári.

Samkvæmt þeim þjóðarpúlsi naut Landhelgisgæslan trausts 89% Íslendinga, embætti forsta Íslands 79%, lögreglan 73%, Háskóli Íslands 70%, heilbrigðiskerfið 70%, Umboðsmaður Alþingis 53%, Seðlabankinn 45%, Ríkissakskóknari 42%, Ríkissáttasemjari 41%, dómskerfið 37%, þjóðkirkjan 31%, Alþingi 23%, bankakerfið 21% og borgarstjórn Reykjavíkur rekur lestina á þessum lista – hún nýtur trausts 17% landsmanna.

„Samfélagið metur það sem vel er gert og það endurspeglast í mikilli velvild og hlýhug til okkar starfsemi,“ segir Bjarni Jónasson í pistli til starfsmanna stofnunarinnar.