Safnasafnið opnað í dag – 30 ára afmæli

Safnasafnið á Svalbarðsströnd verður opnað í dag með fjölbreyttum sýningum og gjörningi. Safnið var stofnað árið 1995 af hjónunum Níelsi Hafstein og Magnhildi Sigurðardóttur og 30 ára afmæli þess verður því fagnað í ár.
Safnið fagnar 30 árum með 14 nýjum og fjölbreyttum sýningum og útilistaverkum. Stór samsýning sameinar 135 verk eftir breiðan hóp listafólks - en listamenn með einkasýningar í ár eru Ísleifur Konráðsson, Þorbjörg Halldórsdóttir, Stefán V. Jónsson frá Möðrudal (Stórval) og Thor Vilhjálmsson.
Til vinstri: Eitt af útilistaverkunum við Safnasafnið. Til hægri: Hluti sýningar Ragnars Bjarnasonar (1909-1977) í anddyri safnsins.
Stutt dagskrá verður við opnun safnsins klukkan 14.00 í dag:
- Níels Hafstein, kynnir dagskrána.
- Guðmundur Andri Thorsson og Örnólfur Thorsson flytja stutt ávarp í tilefni afmælisins og sýningu á verkum föður þeirra, Thors Vilhjálmssonar.
- Sigrún Brynja Einarsdóttir, ráðuneytistjóri Menningarmálaráðuneytisins, opnar sýningarnar formlega
Að lokinni formlegri opnun flytja listamennirnir Huginn Þór Arason, Hrefna Lind Lárusdóttir og Berglind María Tómasdóttir gjörninginn Innsta lagið (Eilífðarkúlan). Hann stendur yfir í 15-20 mínútur á meðan geta gestir skoðað sýningarnar.
Aðstandendur sýninga leiða gesti óformlega um sýningarnar frá kl. 14.30 til 16:40 í dag:
- Eiríkur G. Guðmundsson, og Halla Bogadóttir, sem lána verk á sýningu Þorbjargar Halldórsdóttir segja frá verkum hennar.
- Jenný Karlsdóttir og Bryndís Símonardóttir sem standa að sýningu á hvítsaumi segja frá sýningunni.
- Guðmundur Andri og Örnólfur Torssynir segja frá verkum föður síns Thors Vilhjálmssonar sem hefði átt 100 ára afmæli í ár.
- Níels Hafstein, Magnhildur Sigurðardóttir, stofnendur Safnasafnsins, og Þórgunnur Þórsdóttir, framkvæmdarstjóri Safnasafnsins, leiða gesti um sýningarnar og svara spurningum
Frá og með morgundeginum verður safnið síðan opið alla daga kl. 10:00 - 17.00 til 22. september.
Magnhildur Sigurðardóttir að gera klárt fyrir sýningarnar sem opnaðar verða í dag. Mynd af Facebook síðu Safnasafnsins.
Höfuðsafn alþýðulistar
Safnasafnið, höfuðsafn íslenskrar alþýðulistar, var stofnað 17. febrúar árið 1995, segir á vef safnsins.
„Stofnendur hafa í rúm 30 ár safnað af ástríðu verkum helstu alþýðulistamanna landsins, listamanna sem af ýmsum ástæðum hafa verið á jaðrinum eða utanveltu við meginstrauma, stundum kallaðir næfir eða einfarar í myndlist, en eru í raun beintengdir sköpunarverkinu; sannir, óspilltir og frjálsir,“ segir á vefnum. „Einnig lítur safnið til lærðra listamanna sem fara sínar eigin leiðir í listsköpun og falla þannig að sýninga- og söfnunarstefnu Safnasafnsins. Gengið er út frá því að verk allra listamanna í safneign og á sýningum standi á jafnréttisgrunni. Safneignin geymir verk eftir um 300 listamenn, bæði lærða og sjálflærða, allt frá miðri nítjándu öld til dagsins í dag.“
Tíminn flýgur! Níels Hafstein á 20 ára afmæli Safnasafnsins árið 2015. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Nýjar sýningar á hverju ári
Sýningaraðstaðan er gamla í barnaskólanum, sem jafnframt var þinghús Svalbarðshrepps á árum áður, og kaupfélagshúsinu Gömlu-Búð sem reist var árið 1900 á Svalbarðseyri en flutt á safnlóðina og endurgert. „Þessi tvö virðulegu hús voru tengd saman með nútímalegri viðbyggingu og hafa frá árinu 2007 verið umgjörð fjölmargra áhugaverðra sýninga í 10 misstórum sölum,“ segir í kynningu á vef safnsins.
„Skipt er um sýningar á hverju ári og verk úr safneign sett upp með nýjum áherslum í samspili við verk boðslistamanna. Áhersla er lögð á að mynda skapandi flæði milli listaverka og sýningarsala og nýjar sjónlínur sem laða fram einstaka upplifun. Í tilefni af afmælisárinu tökum við í gagnið nýja bókastofu á efri hæð safnsins og nýja kaffiaðstöðu niðri í Blómastofu, þar sem gestum er velkomið að tylla sér og þiggja hressingu. Safnasafnið stendur við þjóðveginn ofan við Svalbarðseyri, austan megin við Eyjafjörð, aðeins í um 10 mínútna akstur frá Akureyri.“
Útilistaverk verður til. Nemendur Valsárskóla unnu verk sem eru til sýnis í görðunum í kringum safnið. Sýningin ber titilinn 17 sortir. Nánar um hana í sérstakri frétt.
Fjölbreytt útilistaverk
Fjölbreytileg verk eru til sýnis á hlaði safnsins og í kringum húsin. Sýningin utandyra er varanleg en í stöðugri þróun og tekur breytingum á hverju ári. „Ný verk sem bæst hafa í þennan glæsta hóp í ár eru viðbætur við Frumskógarlíf Helga Valdimarssonar, þar eru stökkvandi gaupa, hýena og Jane, eiginkona Tarzans, með barn. Safnasafnið efnir á hverju ári til samstarfs við Valsárskóla, grunnskóla Svalbarðsstrandarhrepps, en samstarfið var orðað á fyrstu opnun safnsins vorið 1998. Starfinu er ætlað að efla listrænan áhuga og hugmyndaflug barnanna frá unga aldri. Í ár unnu nemendurnir verk sem bera titilinn 17 sortir og eru til sýnis í görðunum í kringum safnið.“