Fara í efni
Íþróttir

SA vann Fjölni í framlengingu

Unnar Hafberg Rúnarsson í leik gegn SR í úrslitaeinvíginu síðastliðið vor. Unnar skoraði tvö mörk í fyrsta leik SA, sigri á Fjölni, í gær. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Karlalið SA í íshokkí vann Fjölni í framlengingu í fyrsta leik sínum á tímabilinu í gær. Jafnt var að loknum þremur leikhlutum, 4-4, en Marek Wybostok tryggði SA aukastigið með marki þegar tími framlengingarinnar var hálfnaður.

SA lenti 3-1 undir eftir annan leikhluta, en jafnaði tvívegis í þriðja leikhlutanum. Unnar Hafberg Rúnarsson skoraði tvö mörk fyrir SA og þeir Ormur Jónsson og Heiðar Gauti Jóhannsson eitt hvor, og Marek Wybostok bætti svo við fimmta markinu í framlengingunni.

SA komst í 1-0 eftir þrjár og hálfa mínútu með marki Orms Jónssonar. Heimamenn í Fjölni svöruðu með tveimur mörkum og voru yfir eftir fyrsta leikhlutann og bættu við þriðja markinu um miðjan annan leikhluta og höfðu 3-1 forystu fyrir síðasta leikhlutann.

Strax á fyrstu mínútu þriðja leikhluta minnkaði Unnar Hafberg Rúnarsson muninn í 3-2 og jafnaði svo í 3-3. Aftur náðu heimamenn í Fjölni forystunni þegar um sex mínútur voru eftir af leiknum, en Heiðar Gauti Jóhannsson jafnaði í 4-4 stuttu síðar og ekki meira skorað í þriðja leikhluta. Þá var komið að framlengingu og þar var það Marek sem kláraði dæmið fyrir SA.

  • Fjölnir - SA 4-5 (2-1, 1-0, 1-3, 0-1)

Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Hilmar Sverrisson 1/2, Andri Helgason 1/0, Gabríel Egilsson 1/0, Pétur Egilsson 1/0, Emil Alengaard 0/2, Viktor Svavarsson 0/2, Hektor Hrólfsson 0/1.
Varin skot: Óskar Rúnarsson 32 (86,5%).
Refsimínútur: 17

SA
Mörk/stoðsendingar: Unnar Hafberg Rúnarsson 2/0, Ormur Jónsson 1/1, Heiðar Gauti Jóhannson 1/0, Marek Wybostok 1/0, Orri Blöndal 0/1, Jóhann Már Leifsson 0/1, Bjarmi Krisjánsson 0/1, Arnar Kristjánsson 0/1, Uni Blöndal 0/1, Robbe Delport 0/1.
Varin skot: Róbert Steingrímsson 12 (75%).
Refsimínútur: 18

Leikskýrsla

Spennandi vetur fram undan í Innbænum

Óhætt er að segja að spennandi vetur sé fram undan hjá Íslandsmeisturum SA. Fjallað er um karlaliðið og veturinn fram undan í frétt á vef SA í gær. Þar er farið yfir breytingar á liðinu, hverjir eru farnir og hverjir eru komnir og birtur leikmannalisti með upplýsingum um aldur, númer og leikstöður. Annar af nýjum erlendum leikmönnum liðsins, Robbe Delport, spilaði með báðum SA-liðunum um helgina, Jötnum á föstudagskvöld og meistaraflokki SA í gær. Hann er fyrirliði unglingalandsliðs Belgíu og var fastamaður í A-landsliði landsins síðastliðinn vetur. 

Sheldon Reasbek, rennblautur en glaður eftir að SA vann Íslandsmeistaratitilinn síðastliðið vor. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Sheldon Reasbeck er á sínu öðru ári með liðið en með honum í vetur sem aðstoðarþjálfarar verða tveir reynsluboltar úr hokkíinu, þeir Björn Már Jakobsson sem lagði skautana á hilluna í vor eftir 29 ár í meistaraflokki, og Ingvar Þór Jónsson, sem einnig er tiltölulega nýhættur keppni eftir áratugi í hokkíinu. 

Stórsigur ungmennaliðsins á föstudag

Ungmennalið sömu félaga, Húnar og Jötnar, áttust við á föstudagskvöld og þar höfðu Akureyringar einnig betur. Báðir leikirnir eru í forkeppni Toppdeildarinnar þar sem eigast við meistaraflokkslið SA, Fjölnis og SR og ungmennalið SA og Fjölnis í einfaldri umferð, eins og akureyri.net hefur áður greint frá.

Jötnar, ungmennalið SA, vann sinn fyrsta leik á föstudagskvöld þegar liðið mætti Húnum, ungmennaliði Fjölnis. Jötnar skoruðu 11 mörk gegn tveimur. Þessi lið eiga eftir að mætast oft í vetur, en fyrstu vikur Íslandsmótsins eru þau með meistaraflokksliðunum þremur í forkeppni Toppdeildarinnar og munu síðan eigast við í B-flokki deildarinnar eftir styrkleikaskiptingu.

  • Húnar - Jötnar 2-11 (1-3, 1-4, 0-4).

Mörk Jötna: Robbe Delport, Þorleifur Sigvaldason og Askur Reynisson skoruðu tvö mörk hver og þeir Bjarmi Kristjánsson, Alex Ingason, Mikael Eiríksson, Stefán Guðnason og Bjartur Westin eitt hver.

Leikskýrsla

Tvöfalt fleiri skot en heimamenn

Aftur að meistaraflokksleiknum. Það eru auðvitað lokatölurnar sem skipta máli, en engu að síður áhugavert að skoða gang leiksins. Fjölnir hafði forystu eða þá að jafnt var í tölum í tæpar 46 mínútur í leiknum, að framlengingu meðtalinni, en SA átti meira en tvöfalt fleiri skot á mark en heimamenn. Fjölnir átti 16 skot, en SA 37. 

Eins og áður hefur komið fram er hægt að fylgjast með öllum hokkíleikjum í beinu streymi á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands og að sjálfsögðu horfa á upptökur eftir á. Leikur Fjölnis og SA er aðgengilegur á rásinni - sjá hér - en til að létta lesendum lífið er hér að neðan farið yfir mörkin og tengt beint á mörk SA í leiknum.

  • 0-1 - Ormur Jónsson (03:25). Stoðsending: Robbe Delport.

Nýjasti liðsmaður SA, belgíski landsliðsmaðurinn Robbe Delport, fékk pökkinn inni í eigin varnarsvæði og skautaði með hann fram hægra megin, sendi síðan út á Orm Jónsson sem hafði fundið sér opið svæði og skoraði af öryggi.

  • 1-1 - Gabríel Egilsson (18:07). Stoðsending: Hilmar Sverrisson.

  • 2-1 - Hilmar Sverrisson (19:46). Stoðsending: Emil Alengaard, Viktor Svavarsson.

  • 3-1 - Pétur Egilsson (38:06). Stoðsendingar Hektor Hrólfsson, Viktor Svavarsson.

Á lokamínútum fyrsta leikhluta fengu tveir leikmenn SA tveggja mínútna brottvísun með stuttu millibili. Þetta nýttu Fjölnismenn sér og jöfnuðu í 1-1 þegar þeir voru fimm á móti þremur útileikmönnum. Í íshokkí eru reglur þannig að refsitíma leikmanns lýkur ef lið sem er í undirtölu inni á svellinu fær á sig mark. Fjórði leikmaður SA kom því inn á þegar Fjölnir jafnaði í 1-1, en sá fimmti kláraði sína refsingu. Hann var síðan nýkominn inn á svellið og á leið í vörnina þegar Fjölnir skoraði aftur, 14 sekúndum fyrir lok leikhlutans. Pétur Egilsson náði svo tveggja marka forystu fyrir heimamenn þegar stutt var eftir af öðrum leikhluta.

  • 3-2 - Unnar Hafberg Rúnarsson (40:40). Stoðsending: Bjarmi Kristjánsson.

Dagur Jónasson átti sendingu út úr varnarsvæði SA á Bjarma, hann kom pökknum áfram á Unnar sem átti fast skot frá vinstri framhjá varnarmanni og markverði Fjölnis.

  • 3-3 - Unnar Hafberg Rúnarsson (52:25). Stoðsending: Orri Blöndal, Jóhann Már Leifsson.

SA léku á milli sín inni í varnarsvæði Fjölnis. Jóhann Már Leifsson fékk pökkinn hægra megin við markið og átti sendingu á Orra Blöndal, ekki með kylfunni heldur hægri skautanum. Orri reyndi skot sem hefði sennilega ekki hitt á markið, en það kom ekki að sök því Unnar var laus á fjærstönginni og hamraði pökkinn í netið af stuttu færi.

  • 4-3 - Andri Helgason (54:05). Stoðsending: Emil Alengaard, Hilmar Sverrisson.
  • 4-4 - Heiðar Gauti Jóhannsson (56:29). Stoðsending: Arnar Kristjánsson, Uni Blöndal.

Þegar tæpar sex mínútur voru eftir af leiknum náðu Fjölnismenn aftur forystunni með marki frá Andra Helgasyni. SA-menn létu það ekki slá sig út af laginu og um tveimur og hálfri mínútu síðar jafnaði Heiðar Gauti. Uni og Arnar áttu þá í baráttu við varnarmenn Fjölnis úti hægra megin sem endaði með því að Arnar komst inn fyrir hægra megin, renndi pökknum út á Heiðar Gauta sem beið fyrir utan skoraði með föstu skoti vinstra megin.

  • 4-5 - Marek Wybostok (2:30 í framlengingu). Stoðsending: Heiðar Gauti Jóhannsson, Ormur Jónsson.

Gullmarkið kom þegar um tvær og hálf mínúta voru liðnar af framlengingunni. SA-menn náðu að stöðva sókn Fjölnis, Ormur komst fram fyrir sóknarmann Fjölnis, kom pökknum á Heiðar Gauta og hann áfram til Mareks sem hafði stungið sóknarmann Fjölnis af. Marek var einn á móti markverði og átti ekki í neinum vandræðum með að klára sóknina og tryggja SA aukastigið.