Rokk, ról og sígild heimsendastemning
 
											Tiltölulega ný íslensk rokkhljómsveit, Hvítá, skipuð ástríðutónlistarmönnum með áratuga reynslu af tónlistarsköpun, kemur fram á Græna hattinum annað kvöld, föstudagskvöld, og leikur í heild væntanlega plötu – Spirit of our Times and the Future of the Apocalypse. Gítarleikarinn Þór Freysson, sem margir muna eftir úr Baraflokknum, er annar tveggja Akureyringa í Hvítá. Hann segir ótrúlega gaman að koma aftur að tónlistarsköpun eftir 40 ára hlé.
„Við lögðum upp með að búa til plötu sem hefði skírskotun í tímana sem við höfum lifað, menningu okkar og sögu en líka með tilvísun í hljóðheima sjöunda, áttunda og níunda áratugarins fram á okkar daga,“ segir Þór Freysson við akureyri.net. Nefnd plata er sú fyrsta sem Hvítá sendir frá sér og er „hugmyndaverk“, eins og hann kallar það; stundum er talað um Concept plötu upp á ensku. Og tónlistin flokkast undir alternatífa rokktónlist sem sumir kalla jaðarrokk.
Klassísk stef rokksins
„Yrkisefnið er þannig líka tíðarandi og fréttaviðburðir þessara áratuga auk þess sem sungið um hin klassísku stef rokksins: ástina, lífið, dauðann, kynlíf, áfengi, eiturlyf, fíkn og rokk og ról. Og yfir þessu öllu vofir heimsendastemning því alltaf birtist nýr mögulegur heimsendir á hverjum áratug,“ segir Þór.

Hinn Akureyringurinn í bandinu, Tryggvi Már Gunnarsson, leikur einnig á gítar og á ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana. Faðir hans, Gunnar heitinn Tryggvason, lék með fjölda hljómsveita um áratuga skeið og seldi einnig hljóðfæri í Tónabúðinni.
Auk akureyrsku gítarkappanna eru í Hvítá Pétur Kolbeinsson bassaleikari, trommarinn Ingi Ragnar Ingason, Ásgrímur Angantýsson sem leikur á hljómborð og síðast en ekki síst Róbert Marshall, kunnur fjölmiðlamaður og fyrrverandi alþingismaður, sem syngur auk þess að leika bæði á gítar og saxafón. Róbert semur einnig alla texta við lögin og eru þeir á ensku.
Risamótunarár í tónlist
„Við erum undir sterkum áhrifum frá sjöunni og áttunni – 1970 til 1990; alveg frá Bravó og POP blöðunum þýsku sem maður sótti í bókabúð Jónasar um 1973, til Live Aid 1985. Þetta voru risamótunarár í tónlist fyrir mína kynslóð sem maður býr vel að,“ segir Þór Freysson. „Það er ótrúlega gaman að koma aftur að tónlistarsköpun eftir 40 ára hlé og fara af stað aftur með frábærum hópi af ástríðutónlistarmönnum sem skipa Hvítá.“
Óhætt er að segja að Þór hlakki til að stíga á svið í gamla heimabanum. „Ég hvet alla til að kíkja á Græna hattinn – besta tónleikastað landsins og upplifa nýja tónlist sem er sprottin úr þessum frábæra jarðvegi sjöunnar og áttunnar.“
Hljómsveitin hefur unnið að þessu verkefni frá því haustið 2023 og hefur þegar birt nokkur lög opinberlega. Hægt er að hlýða á þau á tónlistarveitum, til dæmis Spotify.
- Tónleikarnir á Græna hattinum föstudagskvöldið 31. október hefjast klukkan 21:00.

Tryggvi Már Gunnarsson, annar tveggja Akureyringa í hljómsveitinni Hvítá.