Fara í efni
Mannlíf

„Ræktun nærandi fyrir andlegu hliðina líka“

Kristín Helga með manni sínum, Ottó Elíassyni, við kirsuberjatréð í garðinum. Garðyrkjan er fjölskylduverkefni. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Blómakonan Kristín Helga Schiöth sáir og elur allskyns plöntur, matjurtir, sumarblóm og fleira á hverju ári, á heimili sínu í Huldugili á Akureyri. Ræktunin er fjölskylduáhugamál, en eiginmaðurinn Ottó og synirnir Ólafur Elías og Unnsteinn Ægir eru liðsmenn af heilum hug. Kristín segir það sé svo gaman að geta deilt blómum með fólki, en í ár gaf hún vinum og vandamönnum Pelagóníur í sumargjöf. „Ég sáði þeim 15. febrúar, þegar allt var hvað dimmast og kaldast,“ segir hún. „Vorið er ekki komið í hugann þegar maður byrjar að sá, en þetta er eitthvað loforð sem maður gefur sjálfum sér, um að það muni birta til og hlýna.“ Blaðamaður Akureyri.net spjallaði við Kristínu í upphafi maímánaðar, og var svo heppin að vera leyst út með fallega Pelagóníu – loforð frá Kristínu um að sumarið komi.

Þetta er seinni hluti viðtalsins við Kristínu Helgu, fyrri hlutinn birtist í gær á Akureyri.net.

Í GÆR – ÆTTARÞRÁHYGGJAN ER GARÐYRKJA OG BLÓMAGLEÐI

 

Þrjár kynslóðir blómakvenna. Kristín Helga erfði ræktunaráhugann frá mömmu sinni Ólöfu Elfu Leifsdóttur (t.v), sem svo erfði hann frá móður sinni, Kristínu (t.h). Mynd úr einkasafni Kristínar

Langamman stofnaði Lystigarðinn

Í fyrri hluta viðtalsins kom fram að á hverju ári er Kristín með einhverja tilraunastarfsemi í ræktuninni. Í ár leitar hún í rætur föðurfjölskyldunnar, og dregur fram danska fræpoka til þess að sýna blaðamanni. „Ég keypti fræ, einhverjar fornar tegundir, í gamla bænum í Árósum. Ég fékk þau á blómasafni, þar sem starfsfólkið viðheldur gömlum tegundum og safnar af þeim fræjum til endursölu,“ segir Kristín. „Þarna finn ég enn eina tenginguna til formæðra minna, vegna þess að langamma mín, Margrét Schiöth, stofnaði Lystigarðinn á Akureyri með Önnu tengdamóður sinni. Þær fengu send fræ frá Danmörku fyrir garðinn og kannski voru það einhverjar af þessum sömu tegundum og ég er að prófa núna. Það er gaman að hugsa til þess, þegar ég fylgist með þessum blómstra.“

 

Dönsku fræin, sem eru ef til vill sömu tegundar og einhver blóm langömmu Kristínar, sem voru gróðursett í Lystigarðinum fyrir löngu. Mynd: RH

Mamma og amma úr Skagafirðinum blómakonur líka

Ólöf Elfa Leifsdóttir, mamma hennar Kristínar skapaði garðinn í Huldugilinu, sem lifir nú áfram og þróast í höndum dótturinnar og hennar fjölskyldu. Ólöf fékk krabbamein allt of ung og lést árið 2019 af völdum þess. Hún var sveitakona að upplagi, frá Keldudal í Hegranesi í Skagafirðinum. Móðir hennar, amma Kristínar og nafna, er enn á lífi og er nýlega flutt á dvalarheimilið á Sauðárkróki, en þar er enn ein konan í fjölskyldunni með græna fingur. „Þetta er fyrsta árið sem amma er ekki með sumarblóm sjálf,“ segir Kristín Helga. „Ég lærði margt af henni líka og við hringjumst mikið á og hún fær nákvæmar lýsingar á því, hvernig ræktunin gengur hjá mér. Þetta er fjölskylduþrjáhyggja!“

Mér finnst gaman að vera með svona dramadrottningar í garðinum

„Hádegisblómin eru í sérstöku uppáhaldi,“ segir Kristín. „Ég rækta mikið af þeim og set þau alltaf á sama stað, í kring um steininn hennar mömmu í garðinum, vegna þess að þau voru uppáhalds blómin hennar. Ég hef svolítið gaman af svona blómum, sem þarf að tjónka við, færa til og hafa svolítið fyrir. Hádegisblómin opnast og lokast eftir því hvort sólin skín, eru svolítið dyntótt. Mér finnst gaman að vera með svona dramadrottningar í garðinum.“

 

Kirsuberjatréð er mikið stolt í garðinum, en feit og pattaraleg býfluga er einmitt að njóta blómanna þegar við skoðum tréð. Mynd: RH

Býflugurnar í Huldugili frá drottningarmeðferð

Það eru líka fjölær blóm í garðinum, en þau voru flest sett niður af mömmu hennar Kristínar. „Ég viðheld þeim bara eftir bestu getu. Svo er skrautkirsið hérna í mjög miklu uppáhaldi,“ segir Kristín. Hún sýnir blaðamanni kirsuberjatré í horni garðsins, sem blómstrar fallega. Í því suðar býfluga og nýtur góðs af blómunum. „Við elskum býflugurnar, í þessari fjölskyldu. Þær koma snemma til okkar, mamma passaði að hafa fjölæringa sem byrja að blómstra snemma, og að það sé alltaf eitthvað blómstrandi í garðinum allt sumarið og út haustið. Þá þurfa þær ekkert að leita lengra.“

„Svo eitrum við aldrei og viljum það alls ekki, líka skordýranna vegna,“ segir Kristín. „Strákarnir vita hvað okkur þykir vænt um flugurnar og það er alltaf viðburður þegar sést fyrst til býflugu í garðinum á vorin. Ef þær þvælast óvart inn og eru eitthvað ruglaðar þá er þeim snarlega hjúkrað með sykurvatni og bráðaaðhlynningu, svo þær komist aftur á flug í garðinum.“

 

Kristín elskar að gefa blóm til vina og vandamanna. Blaðamaður fær þessa fallegu Pelagóníu með heim. Mynd: RH

Tímasetningar í ræktun skipta sköpun

Þó að Kristín sé bersýnilega með ræktunarhæfileikana í æðum ættartrésins, segist hún hafa gert fullt af mistökum, og aðal málið sé að öðlast reynslu. „Þetta snýst mest um tímasetningar, ef ég ætti að ráðleggja eitthvað,“ segir hún. „Lesa vel á pakkningarnar og spá í það hvenær er best að sá, svo plönturnar verði ekki orðnar allt of stórar eða ekki komnar nógu langt þegar kemur að því að setja þær út. Við miðum alltaf við að byrja að sá, þegar Söngvakeppnin byrjar á RÚV í febrúar. Þetta er svolítið Eurovision miðað hjá okkur.“

Vorið er ekki komið í hugann þegar maður byrjar að sá, en þetta er eitthvað loforð sem maður gefur sjálfum sér, um að það muni birta til og hlýna

Kristín mælir líka með að sækja námskeið, en hún hefur farið til dæmis til Jóhanns Thorarensen í Litlu garðyrkjustöðinni og hafði mikið gagn af. „Hann er algjör fagmaður og þau eru frábær. Ég fór til dæmis á námskeið um gulrótaræktun. Svo er ég í Facebook-hópum um garðrækt. Fólk er mjög viljugt að leiðbeina og koma með góð ráð. Ég hef svo nýtt mér fræskipti á Amtsbókasafninu, sem er árlegt og frábært framtak.“

„Ræktun er nærandi fyrir andlegu hliðina líka,“ segir Kristín Helga að lokum. „Þú fylgist með því að fræ sem fer í mold, verður eitthvað. Þú nærir það, gefur því og annast það. Það verður svo að blómi sem þú getur annað hvort borðað, horft á, gefið eða notið.“


Þetta var seinni hluti viðtalsins við Kristínu Helgu, fyrri hlutinn var birtur á Akureyri.net í gær.

Í GÆR – ÆTTARÞRÁHYGGJAN ER GARÐYRKJA OG BLÓMAGLEÐI

 

Vestan við hús eru líka alls kyns plöntur að undirbúa sig fyrir sumar og sól. „Hér vex Sírena sem blómstrar bleiku. Þetta verður agalega fínt í sumar,“ segir Kristín. Mynd: RH


17.05. – Daginn áður en þetta viðtal var birt, gat blaðamaður ekki stillt sig um að kíkja við í Huldugilinu og taka nokkrar myndir af garðinum eins og hann er í dag eftir hlýindi undanfarinnar viku. Hér fylgja þær:

Kristín er búin að setja næstum því allar plönturnar út, enda rjómablíða í bænum. 

Blómakonan veit nákvæmlega hvernig öllum líður í garðinum.

Blandað beð í hröðum vexti, en Kristín segir að það sé allt að gerast mjög hratt núna. 


Kristín notar ekki hanska þegar hún annast blómin, en í moldinni eru efni sem eru góð fyrir okkur að komast í snertingu við. Sennilega verða þær ófáar gæðastundirnar á þessum palli í sumar. Í blómahafinu.