Fara í efni
Mannlíf

Pallaball í Boganum á laugardagskvöldið

Pallaball í Boganum á laugardagskvöldið

Þórsarar halda árlegt Pollamót sitt og Samskipa í knattspyrnu í vikunni, en þar koma saman eldri kynslóðir leikmanna og skemmta sér bæði innan og utan vallar. Að þessu sinni taka 62 lið þátt í mótinu og keppendur verða um 750. Keppni stendur yfir föstudag og laugardag.

Skemmtun verður við félagsheimili Þórsara, Hamar, á föstudagkvöldinu þar sem Rúnar Eff, trúbador og nánast ósigrandi íshokkíþjálfari, og söngkonan Erna Hrönn troða upp; allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.

Á laugardagskvöldið er svo samkoma sem margir bíða áreiðanlega eftir; Pallaball í Boganum, þar sem Páll Óskar heldur uppi fjörinu frá klukkan 23.00 til 4 aðfararnótt sunnudags ásamt rapparanum Birni. Páll Óskar hélt ógleymanlegt Pallaball á Pollamótinu fyrir tveimur árum, og gera má ráð fyrir að bæði þátttakendur á mótinu og aðrir gestir í bænum iði í skinninu að komast loks í slíkt fjör á ný – þegar öllum samkomutakmörkunum hefur verið aflétt.

Miðasala á Pallaballið er hafin og fer eingöngu fram á tix.is