Fara í efni
Fréttir

Óveður í kortunum – ýmsar ráðstafanir

Allt var á floti neðst á Oddeyri í óveðrinu síðla septembermánaðar. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Spáð er afar slæmu veðri á sunnudaginn, 9. október, eins fram kom fyrr í dag. Óttast er sambærilegar aðstæður geti myndast á Akureyri og urðu 25. september þegar sjór flæddi yfir hluta Oddeyrar og olli miklu tjóni. Vegna þessa hafa viðbragðsaðilar frá Norðurorku, Akureyrarbæ og Hafnarsamlagi Norðurlands gripið til ýmissa ráðstafana og aðgerðastjórn Almannavarnarnefndar Eyjafjarðar hefur verið virkjuð.

Í tilkynningum kemur fram að Veðurstofa Íslands spái norðan 18 - 25 metrum á sekúndu með mikilli úrkomu, slyddu við ströndina en annars snjókomu.

  • Miklar líkur eru á að ísing setjist á raflínur og valdi truflunum á afhendingu rafmagns. Því er lögð áhersla á að tryggja varaafl í öllum veitum Norðurorku.
  • Fólki er bent á að ganga vel frá utandyra og koma búfénaði í skjól.
  • Miklar líkur á að færð spillist og ekkert ferðaveður verður á meðan viðvörunin er í gildi.

  • Stórstreymt er á sunnudagskvöld og spáð talsverðri ölduhæð.
  • Á Oddeyri og víðar um bæinn hefur verið gengið úr skugga um að niðurföll og holræsakerfi séu opin og án fyrirstöðu.
  • Einnig hefur verið unnið að viðgerðum á varnargörðum eins og hægt er.
  • Reikna má með að vatnsveðrið valdi miklu álagi á allt fráveitukerfi bæjarins. Gangi þessi slæma veðurspá eftir, mun veðrið að öllum líkindum hafa vandræði í för með sér víðar um bæinn en á Oddeyri og Óseyri.
  • Nægur mannskapur verður til taks, skv. tilkynningu frá Akureyrarbæ og Norðurorku, og hefur hann yfir að ráða öllum þeim tækjabúnaði sem nauðsynlegur er við þær aðstæður sem kunna að skapast, vel útbúnum bílum og vinnuvélum.
  • Vert er að vekja athygli á því að rafmagnstruflanir kunna að valda skemmdum á viðkvæmum búnaði af ýmsu tagi hjá fyrirtækjum og einstaklingum.

Neyðarstjórn Norðurorku hefur verið virkjuð og starfsmenn Akureyrarbæjar eru í viðbragðsstöðu. Aðgerðarstjórn Almannavarnarnefndar Eyjafjarðar fundaði í morgun og kemur aftur saman til fundar í fyrramálið.

  • Appelsínugul viðvörun vegna veðurs verður í gildi fram á mánudagsmorgun.
  • Hvað þýðir appelsínugul viðvörun? Miðlungs eða miklar líkur eru á veðri sem valdið getur miklum samfélagslegum áhrifum, tjóni og/eða slysum og ógnar mögulega lífi ef aðgát er ekki höfð. Skerðing á samgöngum og innviðum/þjónustu tímabundin/staðbundin.

Smellið hér til að sjá upplýsingar frá Norðurorku um góð ráð ef rof verður á þjónustu.

Þetta hjólhýsi fauk í Hagahverfi í óveðrinu í september. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson