Fara í efni
Fréttir

Ótrúlegur hiti á Akureyri í júlí! Stefnir í Íslandsmet

Tjaldsvæði skátanna að Hömrum, sannkölluð paradís þar sem margar síðustu vikur hafa færri komist að …
Tjaldsvæði skátanna að Hömrum, sannkölluð paradís þar sem margar síðustu vikur hafa færri komist að en vildu. Ljósmynd: Axel Þórhallsson.

Ekki er loku fyrir það skotið, að mati Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings, að meðalhiti á Akureyri í júlí verði sá mesti hér á landi síðan mælingar hófust! Að vísu er spáð heldur svalara veðri næstu degi en metið gæti samt fallið. Einar fjallar um þetta í kvöld á vef Veðurvaktarinnar, blika.is.

Einar segir:

Frá 1. til 24. júlí reiknast meðalhitinn á Akureyri 14,99°C. Þessi meðalhitatala er mjög há þó svo að mánuðurinn sé ekki liðinn. Það eru reyndar heldur svalari dagar í vændum í komandi viku og til mánaðamóta. Ekki þó svo kalt, en hér er því spáð að meðalhitinn endi í 14,0 til 14,2°C, Verði sú raunin munu tvö mánaðarhitamet verða slegin.

  1. Hæsti meðalhiti veðurstöðvar í júlí. Fyrra metið sem er viðurkennt er 13,7°C frá Írafossi 1991.
  2. Hæsti mánaðarhiti á Íslandi frá upphafi mælinga! Vafasöm tala, 14,0°C reiknaðist á Valþjófsstað í Fljótsdal í ágúst 1880.

Það eru helst Torfur í Eyjafjarðarsveit sem blanda sér í þessa baráttu og meðaltalið þar kann að skáka Akureyri á endanum. Mývatn og Hallormsstaður eru þar einnig skammt undan.

Blika.is

Börn að leik á tjaldsvæðinu að Hömrum 30. júní síðastliðinn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.