Fara í efni
Mannlíf

Ótrúlegar sögur Tómasar á Borgum

Teikning af Tómasi: Rakel Hinriksdóttir

Margir frægir lygalaupar hafa komið og farið í heim þennan. Í Grímsey bjó einn slíkur, Tómas Steinsson á Borgum. Hann fæddist árið 1769 og lauk sinni jarðvist árið 1843. Tómas gefur kollegum sínum í uppspuna, á borð við Munchhausen barón og fleirum, ekkert eftir. Birtar verða nokkrar ótrúlegar sögur af Tómasi á Akureyri.net á næstunni.

Sögurnar hér eru endurskráðar úr ýmsum heimildum. Helst ber að nefna Handrit Theódórs Friðrikssonar frá 1907, baksíðu Alþýðublaðsins 27.03.1966 og greininni „Gengið um Grímsey” úr sunnudagsblaði Tímans 26.07.1964. Báðar greinar lesnar á www.timarit.is.

Tómas á Borgum: Margt býr í hákarlsmaga

Tómas reri gjarnan til hákarlaveiða í nágrenni Grímseyjar og voru það oft viðburðarríkar ferðir. Sögur herma að hákarlarnir sem Tómas kljáðist við hafi oft verið ógurlegar skepnur sem erfitt var að draga um borð, en alltaf tókst Tómasi að hafa vinninginn. Eitt skiptið beit á agnið, en um leið var ljóst að bráðin var af stærri gerðinni. Eftir ótrúlegt einvígi Tómasar og hákarlsins, sem var sá allra stærsti sem synt hefur um heimsskautsbaug, náði Tómas að draga dýrið til lands og drap það í Grímseyjarfjöru. Segir nú ekki af því hvernig gekk að gera að dýrinu, fyrr en Tómas kemst að maga dýrsins og dregur þar út hvorki meira né minna en heila skemmu. Það sem honum þótti enn kynlegra, var að innan úr skemmunni greindi hann óumdeilanlega mannsraddir. Inni í skemmunni fann Tómas tvo Mývetninga sem sátu við borð og voru að fá sér magál og brennivín.

Hákarlsskrímslið hafði komist í Mývatn í gegn um undirgöng síðastliðinn vetur og gleypt í heilu lagi skemmu þessa sem stóð við bakka vatnsins. Það eina sem varð mönnunum til lífs, var að þeir höfðu haft feykinóg af magál til vista og brennivínið til þess að halda á sér hita. Þeir þökkuðu Tómasi lengi og vel og buðu honum í staupinu í þakkarskyni.