Ótrúleg upplifun: „Ég dó en dó ekki“
„Hvernig var að deyja, María?“
Þannig spyr Þorsteinn J. Vilhjálmsson – gjarnan kallaður Þorsteinn Joð – í merkilegu viðtali við Akureyringinn Maríu Björk Ingvadóttur sem birt er á nýjum fjölmiðli Þorsteins, TV1.
Á þessum forvitnilega miðli er bæði hægt að horfa og hlýða á viðtalið sem sjónvarpsefni en einnig lesa, þar sem samtal Þorsteins og Maríu er kallað tímaritsgrein.
María Björk svarar spurningunni í myndbroti sem sjá má á vefnum:
„Rosalega skelfilegt en líka ótrúleg upplifun. Ég dó en dó ekki.“
og hún svarar einnig:
„Ég veit ekki hvort ég dó en ég fór úr líkamanum, það veit ég vegna þess að það var sterka upplifunin ...“
María Björk var lengi fréttakona á RÚV, síðar framkvæmdastjóri sjónvarpsstöðvarinnar N4 en er nú framkvæmdastjóri Félagsráðgjafafélags Íslands. Það var í janúar árið 2024 sem hún veiktist mjög alvarlega þegar María og eiginmaðurinn, Ómar Bragi Stefánsson, voru í heimsókn hjá syni þeirra og tengdadóttur í New York.
Fjölskylda Maríu Bjarkar þurfti að bregðast hratt við skyndilegum, óútskýrðum veikindum.
„Ég var komin algerlega út úr heiminum. Ég var keyrð á heilsugæslu í Brooklyn. Læknir þar skoðaði mig og kom strax með sjúkdómsgreingu: Sepsis,“ segir hún í viðtalinu við Þorstein og hann skrifar:
María áttaði sig alls ekki á því hvað það var en Chloe Langston, tengdadóttir hennar, vissi hvað klukkan sló. Vinkona hennar hafði veikst úr þessum sjúkdómi skömmu áður. Þetta er lífshættulegt ástand sem getur skapast af völdum of kröftugs svars ónæmiskerfisins við alvarlegri sýkingu. María var flutt rakleitt með sjúkrabíl á Wyckoff Heights-sjúkrahúsið og á gjörgæslu.
Maríu Björk hrakaði stöðugt næstu klukkustundir, „þar til loks að hún lést. Eða svo gott sem,“ segir Þorsteinn og heldur áfram:
Það voru sjálfsagt lífsmörk en María fann að hún fór úr líkamanum. „Ég fór inn í svört göng. Þau voru ekki stór, svona álíka og þetta stúdíó sem við erum í núna. Það var fullt af ljósi, stjörnum, endalausri birtu. Skyndilega fann ég fyrir hönd á öxlinni á mér. Ég fann að þetta var Sólveig mamma mín.“
Umfjöllun Þorsteins Joð um Maríu Björk:
- Sjónvarp – Til NY og enn lengra
- Tímaritsgrein – Á næturvakt í öllum heiminum