Fara í efni
Íþróttir

Öruggur sigur Þórs á Gróttu á Nesinu

Fannar Daði Malmquist Gíslason innsiglar sigur Þórsara undir lok leiksins á Seltjarnarnesi í dag. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu Gróttu 3:0 á Seltjarnarnesi í dag í bikarkeppninni í knattspyrnu og verða því í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslitum keppninnar á morgun. Rafael Victor gerði tvö fyrstu mörkin og Fannar Daði Malmquist Gíslason það þriðja.

Heimamenn voru betri í Seltjarnarnessól og nánast logni í fyrri hálfleik. Þeir sköpuðu nokkrum sinnum hættu við mark gestanna en Aron Birkir Stefánsson, markvörður Þórs, var vandanum vaxinn. Í seinni hálfleiknum voru Þórsarar hins vegar betri og sigurinn var sanngjarn og öruggur þegar upp var staðið.

Grótta varð fyrir því áfalli þegar aðeins 10 mín. voru liðnar af seinni hálfleik að Tareq Shihab var sýnt gult spjald öðru sinni og þar með rautt. Þórsarar gerðu vel einum fleiri og komust á blað nokkrum mínútum eftir brottreksturinn.

Rafael Victor gerði fyrsta mark leiksins eftir rúman klukkutíma. Hér ver Rafal Stefán Daníelsson markvörður Gróttu frá Victor eftir að hann prjónaði sig laglega í gegnum vörnina. Þórsarar fengu horn ...

... og eftir fyrirgjöf stýrði Rafael Victor boltanum laglega með höfðinu í hornið fjær. 

Aðdragandinn var sá að að Rafael Victor prjónaði sig laglega í gegnum vörn Gróttu en Rafal Stefán í markinu varði vel frá honum. Hornspyrnan var tekin stutt, boltanu rennt út á Ými Má Geirsson, hann sendi fyrir markið og Victor var aleinn á markteignum og skallaði laglega í fjærhornið.

Victor var aftur á ferðinni þegar stundarfjórðungur var eftir. Hann skoraði þá af stuttu færi eftir góða sendingu Fannars Daða af vinstri kantinum og Þórsarar komnir í afar vænlega stöðu.

Jafnt varð í liðunum sex mín. fyrir leiklok þegar Bjarki Þór Viðarsson, fyrirliði Þórs, var rekinn af velli fyrir að stjaka við framherja Gróttu sem var að sleppa í gegn. Ekkert varð úr aukaspyrnunni sem dæmd var en Þórsarar gulltryggðu hins vegar góðan sigur með þriðja markinu tveimur mín. eftir að Bjarka rölti út af. Þar var Fannar Daði á ferðinni. Eftir orrahríð í vítateig Gróttu datt boltinn niður í markeiginn, Fannar var fljótari en tveir varnarmenn Gróttu að átta sig á stöðunni og þrumaði í netið af stuttu færi.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna