Fara í efni
Íþróttir

Öruggur sigur SA á Íslandsmeisturunum

Jónína Margrét Guðbjartsdóttir og Guðrún Ásta Valentine fyrir leik í gær. Önnur er tæplega 31 ári eldri en hin. Mynd: Ari Gunnar Óskarsson.

Tímabilið byrjaði vel hjá kvennaliði Skautafélags Akureyrar í íshokkí í gær þegar liðið sótti Íslandsmeistara Fjölnis heim í Egilshöllina. Fimm mörk SA gegn engu marki Fjölnis varð niðurstaðan í opnunarleik Toppdeildar kvenna. Leikurinn og leikmannahópurinn gefa Akureyringum tilefni til bjartsýni á gott gengi okkar liðs í vetur eftir að hafa þurft að horfa á eftir Íslandsmeistaratitlinum suður í tvígang á síðustu tveimur árum. 

Eins og fram kom í upphitunarfrétt hér á akureyri.net í gær hafa orðið sviptingar í leikmannamálum og hefur lið Fjölnis veikst töluvert. Kolbrún María Garðarsdóttir er komin aftur í raðir SA. Kolbrún María var þó ekki í leikmannahópi SA í gær. Þær Berglind Rós Leifsdóttir og Teresa Snorradóttir færðu sig um set fyrir sunnan og spila með SR í vetur. Þá herma heimildir akureyri.net að enn ein af hinum öflugu akureyrsku hokkíkonum á Reykjavíkursvæðinu, Hilma Bóel Bergsdóttir, ætli að taka sér frí frá íþróttinni í vetur. Stórt skarð hoggið í raðir Grafarvogsfélagsins og liðið klárlega ekki nálægt því eins öflugt núna í byrjun tímabilsins eins og undanfarin ár. Að auki má nefna að Guðrún Marín Viðarsdóttir, enn ein akureyrska hokkíkonan í Fjölni og öflugur varnarmaður, er ekki komin til baka á svellið eftir barnsburðarleyfi.

Ójafnt áður en leikur hófst

En þá að leiknum sjálfum. Leikurinn var ójafn áður en hann hófst því Fjölnir mætti aðeins með tíu útispilara á móti fjórum fullskipuðum línum SA, eða 20 útileikmönnum. Auk þeirra á SA Kolbrúnu Maríu inni og svo kanadíska markvörðinn, Shawlee Geaudrault. Í gær var það hin 16 ára Aníta Ósk Sævarsdóttir sem varði mark SA og hleypti engu inn.

Vegna tæknilegra örðugleika er hvorki hægt að finna atvikalýsingu né leikskýrslu á vef Íshokkísambandsins, en okkar fólk hjá Skautafélaginu bjargaði því snarlega svo mögulegt væri að birta upplýsingar um mörk, stoðsendingar og markvörslur í leiknum. Hokkífjölskyldan er hins vegar öflug í netútsendingum og er öllum leikjum í Toppdeildum kvenna og karla streymt á YouTube, ásamt fjölda leikja í yngri flokkunum.

Í umfjöllun okkar um leiki er stefnt að því að vísa á og lýsa mörkum liðanna, auk þess að birta helstu tölfræði úr leikjunum. 

Fór hægt af stað

Það var langt liðið á fyrsta leikhluta þegar Magdalena Sulova náði að skora fyrsta mark SA. Herborg Rut Geirsdóttir og Amanda Ýr Bjarnadóttir bættu við tveimur mörkum í öðrum leikhluta. Sólrún Assa skoraði fjórða mark í þriðja leikhlutanum og Herborg skoraði svo sitt annað mark og fimmta marki SA. Öruggur sigur þegar upp var staðið. SA átti 38 skot að marki á móti 23 skotum Fjölniskvenna.

  • Fjölnir - SA 0-5 (0-1, 0-2, 0-2)

SA

Mörk/stoðsendingar: Herborg Rut Geirsdóttir 2/1, Magdalena Sulova 1/1, Amanda Ýr Bjarnadóttir 1/0, Sólrún Assa Arnardóttir 1/0, Eva María Karvelsdóttir 0/2, Silvía Rán Björgvinsdóttir 0/2, Kolbrún Björnsdóttir 0/1, Freyja Rán Jónínu- og Sigurjónsdóttir 0/1, Sveindís Marý Sveinsdóttir 0/1, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir 0/1.
Varin skot: Aníta Ósk Sævarsdóttir 23 (100%).  
Refsimínútur: 6.

FJÖLNIR

Varin skot: Karítas Halldórsdóttir 38 (88,4%).
Refsimínútur: 6.

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands - sjá hér - en hér að neðan er hægt að fara beint inn á hvert mark fyrir sig. 

  • 0-1 – Magdalena Sulova (19:53). Stoðsendingar: Kolbrún Björnsdóttir, Eva María Karvelsdóttir.

Fyrsta markið kom ekki fyrr en á lokasekúndum fyrstu lotunnar. Kolbrún Björnsdóttir fékk þá pökkinn upp við eigin varnarsvæði, spilaði á í gegnum vörn Fjölnis, upp að battanum og sendi pökkinn út þar sem varnarmönnum mistókst að hreinsa frá. Magdalena Sulova var fyrst í pökkinn og skoraði framhjá varnarmönnum og markmanni Fjölnis.

  • 0-2 - Herborg Rut Geirsdóttir (26:48). Stoðsendingar: Freyja Rán Jónínu- og Sigurjónsdóttir, Silvía Rán Björgvinsdóttir.

Tæpar sjö mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta þegar annað markið kom. Herborg fékk þá pökkinn vinstra megin við mark Fjölnis, renndi honum út á Freyju Rán sem skaut viðstöðulaust, en varnarmenn Fjölnis komust fyrir pökkinn. Herborg náði þá pökknum aftur hægra megin, spilaði út og kom sér í skotstöðu og skoraði.

0-3 – Amanda Ýr Bjarnadóttir (37:27). Stoðsendingar: Herborg Rut Geirsdóttir, Sveindís Marý Sveinsdóttir.

Þriðja markið kom þegar vel var liðið á annan leikhlutann. Sveindís Marý átti þá skot fyrir utan, sem fór reyndar framhjá markinu, í battann og aftur inn á hættusvæðið. Pökkurinn var laus upp við markið og gerðust þær Herborg og Amanda aðgangsharðar sem endaði með því að Amanda náði að ýta pökknum yfir marklínuna af stuttu færi.

0-4 – Sólrún Assa Arnardóttir (47:25). Stoðsendingar: Eva María Karvelsdóttir, Magdalena Sulova.

Löng sókn hjá SA þar sem SA var í yfirtölu eftir að leikmaður Fjölnis fékk refsingu. SA-konur héldu pökknum inni í varnarsvæði Fjölnis, léku á milli sín og leituðu að færi. Að lokum átti Magdalena skot að marki, Eva María breytir stefnu pökksins fyrir markið og þar er Sólrún Assa fyrst að átta sig og skorar. Yfirveguð sókn þar sem liðið hélt pökknum vel, nýtti liðsmuninn og beið eftir færinu, sem kom að lokum.

Í leikskýrslu voru skráðar stoðsendingar á Kolbrúnu og Evu Maríu, en Magdalena fær pökkinn frá Kolbrúnu, Eva María breytir stefnu pökksins og Sólrún Assa skorar. Magdalena er því sú sem á aðra stoðsendingu, eftir því sem best verður séð á útsendingunni frá leiknum.

0-5 – Herborg Rut Geirsdóttir (51:39). Stoðsendingar: Silvía Rán Björgvinsdóttir, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir.

Fimmta markið kom um miðjan þriðja leikhlutann. Leikmenn SA pressuðu þá Fjölniskonur inni í varnarsvæði þeirra, unnu pökkinn, Silvía Rán dansaði framhjá varnarmönnum og sendi á Herborgu sem á skottilraun og fær svo pökkinn aftur frá Heiðrúnu og skoraði sitt annað mark í leiknum og síðasta mark SA í 5-0 sigri.