Fara í efni
Fréttir

Örn Arnar ráðinn sparisjóðsstjóri

Örn Arnar Óskarsson hefur verið ráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga. Greint er frá ráðningunni á vef sparisjóðsins.

Síðastliðin átta ár hefur Örn unnið sem viðskiptastjóri í fyrirtækjaþjónustu í Landsbankanum á Akureyri. Fyrir það starfaði hann m.a. sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga og síðar sem útibússtjóri Byrs Sparisjóðs eftir að sparisjóðirnir sameinuðust. Á þeim tíma kom Örn að samstarfi og sameiginlegum verkefnum sparisjóðanna með ýmsum hætti, að því er segir á vefnum.

„Örn hefur mikla reynslu úr atvinnulífinu og góða þekkingu á flestum atvinnugreinum. Langur starfsferill á fjármálamarkaði, ásamt því að þjónusta og greina ýmiskonar atvinnurekstur, veita honum góða innsýn í starfsumhverfi Sparisjóðsins. Hann hefur mikla reynslu af útlánastarfsemi, bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Þá þekkir Örn vel til á starfssvæði Sparisjóðsins, en hann ólst upp á Kópaskeri og hefur alltaf átt góðar tengingar í Þingeyjarsýslur.“

Örn mun hefja störf hjá Sparisjóðnum í ágúst.

„Sparisjóður Suður-Þingeyinga ses. er ein elsta fjármálastofnun landsins en hann varð til við sameiningu fimm sparisjóða í Suður-Þingeyjarsýslu. Sá elsti þeirra, Sparisjóður Kinnunga, var stofnaður árið 1889. Hinir voru Sparisjóður Aðaldæla, Sparisjóður Fnjóskdæla, Sparisjóður Mývetninga og Sparisjóður Reykdæla,“ segir á vef sjóðsins.

„Aðalstarfstöð Sparisjóðsins er á Laugum í Reykjadal en að auki eru starfræktar tvær starfsstöðvar, annars vegar í Reykjahlíð, Mývatnssveit en hins vegar á Garðarsbraut, Húsavík. Samkvæmt samþykktum sjóðsins telst starfssvæði hans vera Þingeyjarsýslur þó viðskiptavinir sjóðsins séu dreifðir um allt land. Samkvæmt ársreikningi 2021 voru stöðugildi í árslok, 10,3 talsins.“