Fara í efni
Menning

Opnar leið út í heim fyrir tónlistarmenn

Atli Örvarsson í hljóðveri sínu á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Atli Örvarsson og Colm O‘Herlihy, Íri sem starfað hefur á Íslandi síðustu ár, stofnuðu tónlistarforlagið INNI fyrir nokkrum misserum, og hafa nú samið við Kobalt, stórfyrirtæki á þessu sviði, í því skyni að koma íslenskri tónlist á framfæri um víða veröld.

„Kobalt er eitt stærsta tónlistaforlag veraldar og með þessum samningi erum við komnir með góða tengingu út í hinn stóra heim; á milli 30 og 40 manns hjá Kobalt vinna við það alla daga að koma tónlist á framfæri og okkar listamenn eru því komnir í því þann pott sem sá hópur kynnir,“ segir tónskáldið Atli við Akureyri.net.

Óplægður akur

„Þegar ég flutti heim opnuðust augu mín fyrir því hve margir svakalega hæfileikaríkir tónlistarmenn væru á Íslandi. Ég hafði verið lengi úti og misst ákveðin tengsl en sá fljótlega að hér væri óplægður akur; margir listamenn sem ættu erfitt með að koma efni á framfæri fyrir utan landsteinana.“ Atli bjó lengi í Los Angeles og starfaði sem kvikmyndatónskáld en flutti heim til Akureyrar fyrir nokkrum árum og heldur sínu striki.

„Ég velti því fyrir mér hvort ég gæti nýtt sambönd mín og þekkingu til að búa til braut út úr landinu – spurði sjálfan mig, vegna þess að tónlist er svo mikið notuð í sjónvarpi, kvikmyndum og auglýsingum: því ekki íslensk tónlist? Það er einhver sérstakur hljómur og orka í íslenskri músík. Hún þykir eftirsóknarverð; íslensk tónlist er vörumerki úti í heimi. Grunnhugsjónin hjá mér var að koma íslenskri tónlist meira á framfæri erlendis.“

Colm O‘Herlihy hafði búið hérlendis árum saman og unnið við tónlist. Þeir Atli hittumst, „eftir stutt spjall kom í ljós að við vorum með sömu hugmyndina og ákváðum því að leiða saman hesta okkar og vinda okkur í verkefnið.“

Risaskref

Undirbúningur hefur staðið síðan 2019. „Fyrirtæki sem þetta er kallað Music publishing á ensku; tónlistarforlag. Mikið er um slík fyrirtæki en það var ekki til hér. Við höfum gefið svolítið út af tónlist á hefðbundinn hátt en sá heimur hefur breyst mikið með tilkomu streymisveitna. Hjá tónlistarforlögum er eignarétturinn í hugverkinu sjálfu en ekki upptökunni; þetta er önnur leið til að koma músík á framfæri, til dæmis í ýmiskonar sjónvarpsefni eða á netinu, en líka til að koma lögum fyrir augu og eyru flytjenda erlendis, sem taka þá lögin, flytja og gefa út.“

Atli og félagar ræddu við fleiri forlög. „Við töluðum við Warner Publishing, Universal Music Group og fleiri risa, en ákváðum að semja við Kobalt, sem enn er sjálfstætt fyrirtæki; það hefur ekki verið selt einhverjum af gömlu risunum, en er þó af svipaðri stærðargráðu og er brautryðjandi, meðal annars varðandi greiðslur til listamanna, og að sumu leyti á undan öðrum í tækni. Þetta er frábært fyrirtæki og samningurinn risaskref fyrir okkur.“

Höfuðstöðvar INNI eru á þremur stöðum – sem Atli segir hafa vakið töluverða athygli; á Akureyri, í Reykjavík og Los Angeles. „Við erum fjögurra manna alþjóðlegt teymi, ég, Collum, John Pearson, annar Íri sem komið hefur nálægt íslensku tónlistarflórunni, og lögfræðingurinn Willie Ryan.“ Sá síðastnefndi vann mikið með írsku hljómsveitinni Cranberries, hefur starfað með Ed Sheeran og fleiri heimsþekktum listamönnum.


Listamenn á vegum INNI

  • Atli Örvarsson
  • Ayia
  • Amiina
  • Kári Einarsson
  • Skúli Sverrisson
  • Sin Fang
  • Úlfur Hansson
  • Rose Riebl (Melbourne, Ástralíu)
  • Conor Walsh (Írlandi)
  • Daniel Martin Moore (Kentucky, Bandaríkjunum)