Fara í efni
Fréttir

ON með nýja og mun öflugri hraðhleðslustöð

Orka Nátturunnar tók nýverið í notkun hraðhleðslustöð með 150 kW hámarkshleðslu við Hof á Akureyri, mun öflugri en þá sem fyrir var.

Nýja hraðhleðslustöðin er sú fimmta sem ON hefur opnað á árinu en fyrirtækið stefnir á að setja upp tíu hraðhleðslustöðvar á þessu og næsta ári. Nýja stöðin getur afgreitt allt að 150 kW hleðslu og er með tvö CSS tengi og eitt Chademo. Hún getur þjónað tveimur bílum í einu sem deila þá aflinu að hámarki 75kW á hvort tengi, en það fer eftir hleðslugetu bílsins. Eldri stöðin við Hof gat hlaðið 50 kW að hámarki og komst þá aðeins einn bíll að í einu.

Áframhaldandi uppbygging

ON mun halda áfram að byggja upp net hraðhleðslustöðva en aukin áhersla er lögð á að bjóða upp á aflmeiri hraðhleðslur, þétta net og auka afköst þar sem þörfin er mest, skv. upplýsingum frá fyrirtækinu.

„ON býr yfir mikilli reynslu af hleðsluhegðun og notkun íslenskra rafbílaeigenda en fyrirtækið hóf uppbyggingu slíkra innviða árið 2014 þegar fyrsta hraðhleðslan var opnuð við Bæjarháls í Reykjavík. ON rekur nú stærsta hraðhleðslunet landsins með vel á fimmta tug hraðhleðslustöðva hringinn í kringum landið. Staðsetningar nýju hraðhleðslustöðvanna eru valdar út frá gögnum sem sýna hvar er mest þörf á að styrkja og bæta hleðslumöguleika,“ segir í frétt frá fyrirtækinu.

Samstarfi við N1 lýkur

ON hefur frá upphafi rekið hluta hraðhleðslustöðva sinna við bensínstöðvar N1 víðs vegar um land. Samstarfssamningar milli ON og N1 eru nú að renna sitt skeið og verða þeir ekki framlengdir. N1 mun því á næstu vikum taka yfir hraðhleðslustöðvar ON á stöðvum félagsins. Sem dæmi má nefna að á næstu mánuðum verður hraðhleðslum ON við Borgarnes lokað og hraðhleðslur frá N1 taka við.

Í ár hefur ON opnað nýjar hraðhleðslur við Varmahlíð (110kW) og á þremur stöðum í Reykjavík; við Bæjarháls 150kW, við Miklubraut norður 150kW og við Suðurfell 100kW. Sem fyrr greinir opnar nú 150kW stöð við Hof á Akureyri og stefnt er að því að opna aðra 150kW hraðhleðslu á Norðurlandi fyrir áramótin.