Fara í efni
Mannlíf

Ómetanleg velvild í garð Krabbameinsfélagsins

Ljósmyndir: Heiða Sveinsdóttir

„Það rann upp fyrir mér þar sem ég sat þarna í salnum hversu ómetanlegt það er fyrir félag eins og Krabbameinsfélag Akureyris og nágrennis að hafa þennan ríka stuðning frá því samfélagi sem hér er. Þarna var saman kominn hópur fólks sem átti að minnsta kosti tvennt sameiginlegt; dálæti á kótilettum og ómetanlega velvild í garð Krabbameinsfélagsins,“ segir Selma Dögg Sigurjónsdóttir formaður Krabbameinsfélags Akureyris og nágrennis, um kótelettukvöld félagsins sem haldið var á Vitanum á fimmtudaginn var í tilefni Mottumars og til styrktar félaginu.

Boðið var upp á tónlistaratriði, seldir voru mottumarssokkar og Hörður frá Mynthringar og allskonar seldi vörur úr gamalli mynt til styrktar Krabbameinsfélaginu, svo eitthvað sé nefnt. Fulltrúar Kótelettufélags eðal Akureyringa, KEA, mættu vitaskuld í veisluna og notuðu tækifærið til að færa félaginu 150.000 krónur að gjöf.

„Ekki má heldur gleyma stuðningi þeirra fyrirtækja sem sáu sér fært að leggja til glæsilega happadrættisvinninga en það skiptir félag eins og Krabbameinsfélag Akureyrar miklu máli til að halda úti stuðningi við krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra,“ segir Selma Dögg formaður. „Þessi kvöldstund var ákaflega notaleg fyrir margra þátta sakir – frábær skemmtiatriði, veislustjórn til fyrirmyndar, frábær matur og þjónusta frá Vitanum og svo má ekki gleyma góðum undirbúningi starfsfólks félagsins,“ segir formaðurinn.

Nánar hér á vef Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis