Fara í efni
Íþróttir

Ólöf Björk sæmd gullmerki ÍSÍ

Ólöf Björk Sigurðardóttir, formaður íshokkídeildar SA, og Akureyringurinn Viðar Garðarsson, heiðursformaður Íshokkísambands Íslands. Mynd: ÍHÍ

Ólöf Björk Sigurðardóttir, formaður íshokkídeildar Skautafélags Akureyrar, var á þingi Íshokkísambands Íslands um helgina sæmd gullmerki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Á þinginu var einnig samþykkt reglugerð um Heiðursstúku ÍHÍ. Magnús Einar Finnsson einn þeirra sem formlega voru gerðir meðlimir heiðursstúkunnar, en hann lést árið 2005. Þriðji Akureyringurinn, Viðar Garðarsson, var gerður að heiðursformanni ÍHÍ á þinginu.


Akureyringurinn Viðar Garðarsson, heiðursformaður Íshokkísambands Íslands, nælir gullmerki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í Ólöfu Björku Sigurðardóttur fyrir langt og farsælt sjálfboðaliðastarf í íþróttahreyfingunni. Mynd: ÍHÍ

Ólöf Björk, eða Ollý eins og hún er alltaf kölluð, var í liðinni viku endurkjörin formaður hokkídeildar SA, sem er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún er að hefja sitt 20. starfsár sem formaður deildarinnar. Má kannski segja að gullmerkið hafi verið orðið tímabært og vel það. Vart þarf að kynna fyrir lesendum Akureyri.net hve öflugt hokkístarfið hefur verið á Akureyri undanfarna áratugi. Hokkílið karla og kvenna, stúlkna og drengja vinna titla á hverju ári og hokkídeildin jafnan með fjölmarga fulltrúa í öllum landsliðum Íslands í íþróttinni.

Sem formaður íshokkídeildarinnar er Ollý einnig í aðalstjórn Skautafélagsins. Auk Ollýjar voru kjörin í stjórn íshokkídeildarinnar þau Anna Sonja Ágústsdóttir, Elísabet Ásgrímsdóttir, Ari Gunnar Óskarsson, Benjamín Davíðsson, Ólafur Þorgrímsson, Eiríkur Þórðarson og Sæmundur Leifsson.

Nýkjörin stjórn hokkídeildar SA. Á myndina vantar Önnu Sonju Ágústsdóttur. Myndin er af vef SA, sasport.is