Fara í efni
Fréttir

Ók á skilti og út af Leiruvegi

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bifreið var ekið út af Leiruvegi í nótt. Engin slys urðu á fólki, en bifreiðin er mikið tjónuð.

Bifreiðinni var ekið norður Eyjafjarðarbraut eystri og ætlunin að beygja inn á þjóðveg 1, Leiruveginn, en annaðhvort virðist ökuhraði hafa verið of mikill miðað við aðstæður eða að skort hafi á athygli ökumanns þegar kom að vegamótunum, nema hvort tveggja sé.

Bifreiðin ók niður skilti og hafnaði síðan utan vegar og er mikið skemmd. Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni er þetta ekki í fyrsta skipti sem ökumenn gleyma sér við þessi vegamót og fara yfir Leiruveginn í stað þess að fara inn á hann.