Fara í efni
Fréttir

„Öflug þjónusta og spennandi tækifæri“

Stefán Jóhannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og einn eigenda Þekkingar, Rebekka Kristín Garðarsdóttir, verkefnastjóri og forstöðumaður Wise á Akureyri, og Ragnar Már Ragnarsson, framkvæmdastjóri ráðgjafar hjá Wise, brugðu á leik fyrir Akureyri.net! Skiltið átti setja upp á vesturhlið hússins Hafnarstræti 91. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Því var fagnað formlega á dögunum að upplýsingafyrirtækið Wise er flutt í nýjar skrifstofur á Akureyri og um leið var fagnað nýjum kafla í starfseminni eftir sameiningu Wise og Þekkingar.

„Tilkynnt var um sameiningu fyrirtækjanna fyrir ári. Starfsfólkið starfar nú samhent undir merkjum Wise og flutti nýverið í eitt sögufrægasta hús bæjarins, á horni Hafnarstrætis 91, sem hýsti höfuðstöðvar KEA í 76 ár. Þar starfar öflugur hópur að nýsköpun og þróun lausna fyrir fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög víðs vegar um landið,“ segir í tilkynningu frá Wise.

„Við höfum skýra framtíðarsýn og metnað til að byggja upp enn öflugri þjónustu og skapa spennandi tækifæri hér á Norðurlandi,“ segir Rebekka Kristín Garðarsdóttir, forstöðukona Wise á Akureyri. „Við höfum áratugareynslu í þjónustu við fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir hér á svæðinu og höfum nú öll tæki og tól til að taka næstu skref.“

Starfsmenn Wise á kynningunni. Frá vinstri: Gunnar Örn Haraldsson, Grétar Gíslason, Rebekka Kristín Garðarsdóttir, Gerður Björt Pálmarsdóttir, Stefán Jóhannesson, Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir, Ragnar Már Magnússon, Heiðar Ingi Eggertsson, Rúna Kristín Sigurðarsdóttir, Áki Hermann Barkarson, Brynjar Kristjánsson og Björn Þórhallsson.

Akureyri öflugur miðpunktur

„Við erum staðráðin í að vaxa enn frekar, skapa ný störf og laða að hæfileikafólk sem vill starfa í tæknigeiranum fyrir norðan og stuðla þannig að bættri stafrænni þróun á svæðinu og raunar landinu öllu. Sameiningin styrkir ekki aðeins þjónustuna við viðskiptavini Wise um allt land, heldur festir einnig Akureyri í sessi sem öflugan miðpunkt íslenskrar upplýsingatækni og stafrænnar þróunar,“ segir Rebekka.

Viðburðurinn hófst með stuttri kynningu í Drift, í gamla Landsbankahúsinu, þar sem gestir fengu innsýn í vegferðina fram að sameiningu, lausnaframboðið sem Wise býður upp á og hvaða tækifæri það hefur upp á að bjóða fyrir fyrirtæki og stofnanir á Norðurlandi. Að því loknu var gengið yfir í nýtt skrifstofuhúsnæði Wise að þar sem boðið var upp á léttar veitingar, drykki og spjall.

„Gestir komu víða að – bæði frá fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu – og skapaðist dýrmætt tækifæri til að hittast, rifja upp samstarf, ræða ný tækifæri og tengjast nýju fólki í teymi Wise á Akureyri,“ segir í tilkynningunni.

„Þekking hefur í áratugi verið traustur bakhjarl fyrirtækja og stofnana á Norðurlandi. Fyrirtækið hefur skipað sér sess sem lykilaðili í stafrænni þróun á svæðinu, með djúpa þekkingu á hýsingu, rekstri og þjónustu við tölvukerfi. Nú er þessi sterki grunnur hluti af víðtæku lausnaumhverfi Wise, þar sem viðskiptavinir njóta samfellu í þjónustu – allt frá grunninnviðum og hýsingu til sérsniðinna viðskiptalausna og skýjaþjónustu.“

Rebekka Kristín Garðarsdóttir dró fána Wise að húni á Hafnarstræti 91 – á „kaupfélagshorninu“ eins og það var lengi kallað enda byggði Kaupfélag Eyfirðinga stórhýsið og höfuðstöðvar þess voru þar á sínum tíma.