Nýtt á Akureyri: Viltu leigja þér fallegan kjól?

Sparileigan er glænýtt fyrirtæki á Akureyri þar sem konum gefst kostur á að leigja fallega kjóla fyrir sparileg tilefni. Það eru systurnar Emilía Björk og Sara Mjöll Jóhannsdætur og mágkona þeirra, Rebekka Garðarsdóttir sem standa að verkefninu, en þær eru allar fæddar og uppaldar á Akureyri.
„Það er hálfgalið að kaupa kjól á sextíu þúsund krónur bara til að nota einu sinni, eins og oft gerist þegar konur kaupa sér kjól fyrir ákveðið tilefni. Með Sparileigunni viljum við bjóða upp á aðra leið sem er bæði umhverfisvæn og skemmtileg,“ segir Emilía og heldur áfram; „Það er töluvert framboð af fataleigum á höfuðborgarsvæðinu en það er bæði dýrt og óhentugt fyrir fólk fyrir norðan að nýta sér þær leigur. Okkur fannst því vanta svona þjónustu hér.“
Vantar þig kjól fyrir veislu í sumar? Kannski leynist hann hjá Sparileigunni.
Hófleg verðlagning
Sparileigan mun fyrst um sinn bjóða upp á um 25 nýja kjóla í stærðunum XS upp í L en stelpurnar vonast til þess að stækka úrvalið smám saman í takt við eftirspurn. Kjólarnir eru hugsaðir fyrir ýmsa viðburði sem krefjast fallegs fatnaðar eins og útskriftir, brúðkaup, afmæli eða ýmsar skemmtanir. „Við erum ekki bara með kjóla heldur líka með sett eins og pils og toppa,“ segir Emilía og bætir við að þær hafi fengið mjög góðar viðtökur frá bæjarbúum þó að Sparileigan hafi enn ekki opnað. Biðlistar séu nú þegar komnir vegna ákveðinna kjóla fyrir sumarið. Hún hvetur því áhugasamar konur að kynna sér málið tímanlega.
Framboð Sparileigunnar er hægt að skoða á vefsíðu fyrirtækisins, sparileigan.is sem og á samnefndri Instagramsíðu, en á þriðjudögum er boðið upp á fasta mátunartíma þar sem hægt er að koma og skoða fatnaðinn og snerta efnið á heimili foreldra Emilíu og Söru, að Klettaborg 21. Í ljós kemur að fataleigan verður rekin í gamla herberginu hennar Emilíu sem hefur fengið andlitslyftingu að undanförnu og verið breytt í sýningarrými og mátunarklefa. „Við reynum að hafa verðlagninguna þannig að við myndum sjálfar vilja borga það ef við þyrftum að leigja okkur dress,“ segir Emilía en verðið er á bilinu 3.500-6.500 krónur, sem er aðeins brot af því sem það kostar að kaupa alvöru sparikjól úti í búð.
Það er hálfgalið að kaupa kjól á sextíu þúsund krónur bara til að nota einu sinni, eins og oft gerist þegar konur kaupa sér kjól fyrir ákveðið tilefni. Með Sparileigunni viljum við bjóða upp á aðra leið sem er bæði umhverfisvæn og skemmtileg.
Hægt er að skoða kjólaúrval Sparileigunnar á netinu og koma og máta á þriðjudögum í mátunaraðstöðunni í Klettaborg 21.
Fjölbreyttir kjólar
Aðspurð eftir hverju þær stöllur fari þegar þær kaupa inn kjóla fyrir leiguna segir Emilía að þær stóli á sinn persónulega smekk en eins hafi þær fengið ábendingar og óskir frá fólkinu í kringum sig. Þá segir Emilía að vegna starfs hennar sem flugfreyja hjá Icelandair hafi hún getað nýtt sér það að versla kjóla erlendis frá verslunum sem ekki senda til Íslands, sem geri kjólana í Sparileigunni jafnvel enn meira spennandi. Segir hún úrvalið vera fjölbreytt, kjólarnir séu bæði stuttir og síðir, ermalausir eða síðerma, látlausir eða áberandi. „Þetta hefur ekki verið leiðinlegt ferli, að skoða kjólasíður á netinu og versla inn fyrir þetta verkefni,” segir hún og brosir.
Þó aðeins nýir kjólar séu í boði í Sparileigunni að svo stöddu, eru stelpurnar opnar fyrir því að taka við góðum notuðum kjólum í sölu, selja eldri kjóla úr leigunni og jafnvel auka við úrvalið og þjónustuna í framtíðinni. „Við byrjum rólega og sjáum hvert þetta þróast,“ segir Emilía.