Nýr kafli í samvinnu í þágu farsældar barna
Farsældarráð Norðurlands eystra, vettvangur fyrir samráð, samhæfingu og stefnumótun þjónustuaðila sem koma að málefnum barna í landshlutanum, var formlega stofnað á fimmtudaginn við hátíðlega athöfn í Hofi að viðstöddum Guðmundi Inga Kristinssyni, mennta- og barnamálaráðherra.
„Ætlum að hlusta betur ...“
Stofnun ráðsins markar tímamót í samvinnu ríkis og sveitarfélaga á svæðinu með það að markmiði að efla samþætta og markvissa þjónustu í þágu barna og fjölskyldna þeirra, að sögn stofnenda. „Við ætlum að hlusta betur – bæði hvert á annað og ekki síst á börnin sjálf,“ sagði Þorleifur Kr. Níelsson, verkefnastjóri Farsældarráðs Norðurlands eystra í ávarpi á athöfninni. „Við ætlum að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Við gerum þetta saman og við gerum þetta fyrir börnin,“ bætti hann við.
Sveitarfélögin sem standa að samningnum eru Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Langanesbyggð, Norðurþing, Svalbarðsstrandarhreppur og Þingeyjarsveit. Undir samstarfsyfirlýsingu þjónustuveitenda um þátttöku og samstarf í farsældarráðinu rituðu einnig æðstu stjórnendur stofnana ríkisins og annarra lykilþjónustuveitenda, þar á meðal Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) Lögreglunnar á Norðurlandi eystra, framhaldsskólanna á svæðinu og Svæðisstöð íþróttahéraða Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) og Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ).
Samstaða margra
„Ég fagna því að hér á Norðurlandi eystra starfi nú fjölmennur og öflugur hópur að því að einfalda það ferli sem börn og fjölskyldur þeirra þurfa að fara í gegnum til þess að fá þá viðeigandi þjónustu. Að hér sé unnið markvisst að því að styrkja samstarf milli þjónustukerfa og stuðla þannig að jöfnum tækifærum allra barna til þátttöku, þjónustu, náms og félagslegrar virkni og velferðar,“ sagði ráðherra, Guðmundur Ingi Kristinsson.
„Með stofnun ráðsins sjáum við áþreifanlegan árangur farsældarlaganna og þá samstöðu sem myndast hefur meðal hinna fjölmörgu aðila sem vinna að farsæld barna í landshlutanum,“ sagði Guðmundur Ingi.