Fara í efni
Fréttir

Nóttin logar af norðurljósum

Eyjafjörður í sparibúningi gærkvöldsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Eyjafjörður í sparibúningi gærkvöldsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Auðvelt er að gleyma sér úti við síðla kvölds þótt napurt sé, eins og í gærkvöldi, þegar himininn klæðist sparikjólnum og býður upp í dans. Þegar augum var lygnt aftur í kyrrð Eyjafjarðarsveitar og lagðar voru við hlustir, svei mér ef ekki mátti heyra Kristján Jóhannsson ljúka Hamraborginni í fjarska, því magnaði verki Davíðs frá Fagraskógi og Sigvalda Kaldalóns: Nóttin logar af norðurljósum! Og svo var klappað, að minnsta kosti í vitund ljósmyndarans, bæði fyrir Kristjáni og grænklæddu dönsurunum.