Norðurorka: Vatnsgæf borhola að Ytri-Haga

Norðurorka stefnir að því að vatni úr nýrri borholu í landi Ytri-Haga á Árskógsströnd verði veitt inn á aðveitustofn við Arnarnes ofan Hjalteyrar og þaðan dreift til viðskiptavina veitunnar í Hörgársveit og til Akureyrar haustið 2027. Fyrsta djúpa holan á þessum stað var boruð í sumar.
Þegar holan kemst í nýtingu verður það mikilvægt skref í áformum Norðurorku að tryggja samfélaginu aðgang að áreiðanlegri hitaveitu um ókomin ár, eins og segir í frétt á vef fyrirtækisins.
Borað niður á 1.491 metra dýpi
Aðferðum við borun holunnar er lýst í frétt Norðurorku. Borað var með lofthamri niður á 212 metra dýpi, en síðan með hjólakrónu neðan við það og þegar 420 metra dýpi var náð var borun stöðvuð, holan mæld og fóðurrör sett niður og steypt föst við holuvegginn. Efri hluti holunnar er þannig fóðraður til að halda köldu grunnvatni frá holunni og dregur úr eða tefur fyrir smiti sjávar.
Neðan við 420 metra var holan stefnuboruð með 20 gráðu halla. Borunin frá 212 metrum niður á 420 metra gekk hægt fyrir sig, en neðan við 420 metra gekk borunin hraðar enda borkrónan grenni sem nemur rúmum fimm tommum, eða rúmum 13 sentímetrum. Hallauppbyggingu holunnar var lokið á 830 metrum.
Afkastaprófuð til að meta árangur
Borun vinnsluholunnar lauk 8. september á 1.491 metra dýpi. Þá var hafist handa við mælingar í holunni og að þeim loknum var vinnsluhluti holunnar fóðraður. Holan var síðan afkastaprófuð til að fá hugmynd um hve vel hafði tekist til. Í prófinu runnu yfir 100 sekúndulítrar af um 70 gráðu heitu vatni frá holunni, sem teljast jákvæðar niðurstöður og „sýna að holan er vel heppnuð og vatnsgæf.“
Tekið er fram að hér sé um fyrstu mælingar að ræða, en fyrirhuguð langtímaprófun muni veita ítarlegri upplýsingar um eiginleika holunnar. Holunni var síðan lokað 11. september að loknu afkastaprófinu.