Fara í efni
Fréttir

Norðurhjálp og Matargjafir í samstarf

Mynd: Þorgeir Baldursson

Mannúðarsamtökin Matargjafir Akureyrar og Norðurhjálp hafa tekið ákvörðun um að vinna saman í þágu skjólstæðinga sinna. Í tilkynningu félaganna segir meðal annars að þau hafi orðið vör við að í samfélaginu sé neyðin mikil.

Matargjafir Akureyrar halda áfram starfsemi í fyrra horfi, bæði hvað varðar söfnun, úthlutun og aðstoð við skjólstæðinga og Norðurhjálp heldur einnig áfram sínu striki, að því er fram kemur í tilkynningunni. Sjálfboðaliði frá Matargjöfum hefur verið Norðurhjálp til aðstoðar við daglega úthlutun á brauði og öðru matarkyns. 

Þyngstu mánuðir ársins fyrir fjölskyldur sem hafa lítið á milli handanna eru fram undan og annríki hjá báðum þessum samtökum. Norðurhjálp mun aðstoða með sparifatnað og skógjafir í desember. Í janúar tekur Norðurhjálp við úthlutun korta fyrir fólk sem þarf á því að halda, en þá munu Matargjafir ekki úthluta kortum. 

Desember er þyngsti mánuðurinn í starfsemi þessara samtaka og þungt áfram inn í janúar og febrúar. Þá er oft lítið til skiptanna hjá Norðurhjálp, en með þessu samstarfi sjá samtökin fram á að geta haldið áfram aðstoð í þeim mánuðum. 

„Okkur langar til þess að minna ykkur á að þetta væri ekki hægt án ykkar. Með ykkar velvild, ykkar gjöfum, heimsóknum og öðru getum við þetta saman, sem samfélag,“ segir einnig í tilkynningu samtakanna, en þau reiða sig eins og kunnugt er mjög á stuðning samfélagsins til að geta hjálpað skjólstæðingum sínum, bæði á einstaklinga og fyrirtæki.