Fréttir
Norðansprotinn: Viltu vinna milljón?
19.05.2025 kl. 17:00

María Dís Ólafsdóttir með verðlaunin eftir að hún sigraði í Norðansprotanum þegar keppnin fór fyrst fram árið 2022. Mynd: Lilja Gísladóttir.
Leitin að Norðansprotanum 2025 fer fram þessa dagana og rennur umsóknarfrestur út á miðnætti í kvöld. Um er að ræða nýsköpunarkeppni þar sem leitað er að áhugaverðustu hugmyndunum á Norðurlandi, að því er segir í tilkynningu. Keppnin fer fram dagana 19.-23. maí og lýkur með lokaviðburði og úrslitum sem haldin verða í Messanum hjá Drift EA á Akureyri. Upphaf fjárfestingasjóður mun veita verðlaunafé upp á eina milljón króna.
Keppni fyrir hugmyndasmiði á öllum aldri
„Skráning í keppnina er opin fyrir öll og það kostar ekkert að taka þátt. Fyrirkomulagið er þannig að keppendur skrá sig til leiks fyrir miðnætti í kvöld á slóðinni sem finna má í Facebook viðburði keppninnar – hér. Því næst fá þátttakendur sendar leiðbeiningar um gerð einblöðunga og skila í framhaldinu inn einni A4 blaðsíðu sem útskýrir hugmyndina fyrir dómnefnd. Valdar verða 5-8 hugmyndir sem fá þjálfun í að halda kynningar og fara svo áfram í úrslitin föstudaginn 23. maí í Messanum í Drift EA,“ segir í tilkynningunni.
„Gróska í nýsköpunarmálum“
Svava Björk Ólafsdóttir, verkefnastjóri frumkvöðla og nýsköpunar hjá Háskólanum á Akureyri og þjálfari keppninnar, hvetur alla Norðlendinga sem eru með viðskiptahugmynd að senda hana inn í keppnina. „Þátttakendur fá leiðsögn í að móta einblöðunga sem er góð þjálfun í að kynna hugmyndina sína á skýran og hnitmiðaðan hátt. Þeir sem koma svo áfram í keppninni fá tækifæri til að kynna fyrir dómnefnd og eiga möguleika á að vinna 1 milljón króna sem getur verið gott veganesti á fyrstu skrefunum. Það er mikil gróska í nýsköpunarmálum á svæðinu um þessar mundir og gaman að flytja heim í blómlegt umhverfi og taka þátt - og ekki skemmir veðrið fyrir þessa dagana, hugmyndirnar hljóta að spretta upp hér og þar og allstaðar!“ segir Svava Björk.
Norðansprotinn er samstarfsverkefni SSNE, SSNV, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum, Drift EA, EIMS og Hraðsins með veglegum stuðningi frá Upphaf fjárfestingasjóði. Verðlaunaféið í keppninni hljóðar upp á eina milljón króna sem fyrr segir. Í dómnefnd á lokahófinu verða Sesselja Barðdal Reynisdóttir frá Drift EA, Sverrir Gestsson frá KEA, fyrir hönd Upphafs fjárfestingasjóðs, Hólmfríður Sveinsdóttir frá Háskólanum á Hólum og Jón Ingi Bergsteinsson frá IceBAN - samtökum íslenskra englafjárfesta.
Norðansprotinn vaknar til lífsins
Norðansprotinn var haldinn í fyrsta sinn árið 2022. Keppnin hefur nú verið vakin aftur til lífsins og mun vonandi verða árlegur viðburður héðan af, segir í tilkynningunni.
Í fyrstu keppninna bar sigur úr býtum frumkvöðullinn María Dís Ólafsdóttir með hugmyndina Roðleður sem varð seinna að sprotafyrirtækinu Nanna Lín. „Nanna Lín leðrið er frábrugðið öðru fiskileðri á þann hátt að það er endurmótað yfir í breiður áður en það er sútað. En þannig fæst leður í metravís. Leðrið er úr laxaroði og er sútað með trjáberki, en slík sútun var algeng áður en ónáttúruleg efni komu til sögunnar,“ segir í tilkynningu frá Norðansprotanum. „Markmið Nanna Lín teymisins er að bjóða framleiðendum upp á slitsterkt og umhverfisvænt leður í metravís. Með því að vinna með stærri fleti af leðri má auka hagkvæmni í framleiðslu og minnka sóun sem fylgir afklippum. Einnig getur Nanna Lín leyst plastblandaðan textíl af hólmi og spornað gegn fast fashion.“
„Sigur í Norðansprotanum 2022 var eins og gott spark í rassinn að taka hugmyndina á næsta stig. Ég fæ svo í framhaldinu sprotastyrk frá Tækniþróunarsjóði sem gerði mér kleift að fara í doktorsnám tengt verkefninu í Háskólanum á Akureyri, samhliða því að byggja upp sprotafyrirtækið mitt. Ég mæli með Norðansprotanum fyrir alla sem vilja prufukeyra hugmyndina sína eða jafnvel búa til nýjan starfsferil á sínum forsendum,“ er haft eftir Maríu Dís í tilkynningunni.