Fara í efni
Íþróttir

Nökkvi Þeyr stendur sig mjög vel í Belgíu

Nökkvi Þeyr Þórisson í leiknum gegn Lommel á dögunum þar sem hann var valinn maður leiksins. Ljósmynd: Jan Mees.

Nökkvi Þeyr Þórisson hefur staðið sig afar vel í tveimur síðustu deildarleikjum Beerschot í Belgíu en liðið er í þriðja sæti í næst efstu deild.

Um helgina vann Beerschot lið Escelsior 3:0 á heimavelli þar sem Nökkvi gerði annað mark liðsins og átti stóran þátt í því þriðja. Um fyrri helgi unnu Nökkvi og félagar lið Lommel 3:1 á útivelli, þar skoraði hann líka eitt mark og lagði upp annað – og var valinn maður leiksins. Nökkvi, sem Beerschot keypti af KA í byrjun september, hefur gert þrjú mörk í deildinni.

Hér má sjá glefsur úr síðarnefnda leiknum.

  • Beerschot er í þriðja sæti deildarinnar með 23 stig eftir 13 leiki en SK Beveren og RWD Molenbeek eru bæði með 27 stig.
  • Eftir hefðbundna, tvöfalda umferð – 22 leiki – verður deildinni skipt í tvennt. Sex efstu halda áfram keppni um að komast upp í efstu deild.
  • Aðeins eitt lið fer upp úr deildinni í vetur en þrjú niður úr efstu deild því fækka á í henni úr 18 liðum í 16 fyrir næsta vetur.