Fara í efni
Fréttir

Nauðsynlegt að skipuleggja ráðstöfun lífeyris í tíma

Lífeyrisárin eru stór hluti af lífshlaupinu. Að meðaltali eru þau 21 ár hjá konum og 17 ár hjá körlum á Íslandi. Ljósmynd: Unsplash/Matt Bennett

Landssamtök lífeyrissjóða stóðu fyrir fyrirlestri á Hótel Kea í gær, þar sem markmiðið var að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að huga í tíma að lífeyrisárunum. Góð mæting var á fundinn og greinilegt að Akureyringar hafa áhuga á þessum málaflokki.

„Við viljum að fólk sé undirbúið og geti notið lífeyrisáranna sem best. Fólk eyðir miklum tíma í að velja sér bíla og síma en það er ekki síður mikilvægt að huga að þessu tímabili. Það er hægt að hafa töluverð áhrif á lífeyrisgreiðslur sínar með því að skipuleggja ráðstöfun lífeyris í tíma,“ segir Sólveig Hjaltadóttir hjá Landssamtökum lífeyrissjóða en samtökin hafa hug á að fara víðar um landið með álíka upplýsingafyrirlestra og haldinn var á Hótel Kea í gær.

Lífeyrisárin stór hluti af lífinu

Sólveig segir að fólk verði oft hissa þegar það áttar sig á því hversu langt tímabil lífsins lífeyrisárin eru en að meðaltali eru þau 21 ár hjá konum á Íslandi og 17 hjá karlmönnum. Til samanburðar þá eru konur í Frakklandi að meðaltali 27 ár á lífeyri og karlar 22. Þetta er því töluvert stór hluti af lífshlaupinu og mikilvægt að huga vel af þeim í tíma að sögn Sólveigar. Þá kom líka fram í fyrirlestri Sólveigar að fólk verði oft hissa á því hve háar greiðslurnar megi vera frá lífeyrissjóðunum án þess að greiðslur úr almannatryggingarkerfinu falli alfarið niður. „Fólk hefur almennt ekki kynnt sér þessi mál heldur er bara með einhverjar fyrir fram ákveðnar hugmyndir sem eru kannski ekki réttar,“ segir Sólveig.

Sólveig Hjaltadóttir á fundinum á Hótel Kea. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir.

Hver og einn verður að velja sína leið

Á fundinum á Hótel Kea kom fram að lífeyrismálin geta verið nokkuð flókin þar sem lífeyririnn er tengdur lífslengd og erfitt að spá fyrir um lífshlaupið. Þannig sé oft erfitt að ráðleggja fólki hvenær það eigi að hefja töku lífeyris eða hvernig sé best að skipta honum. Á fundinum var m.a. rætt hvort sniðugt væri að byrja á því að taka út allan viðbótarlífeyrinn fyrst og hefja svo töku á hefðbundnum lífeyri til að koma í veg fyrir að lenda í of háu skattþrepi. Sólveig segir að hver og einn verði að skoða sín réttindi og velja þá leið sem hann telji besta fyrir sig út frá því hvernig hann sjái lífeyrisárin fyrir sér. Þá var einnig rætt um samtryggingu og tilgreinda séreign, nokkuð sem fólk þarf einnig að taka afstöðu til á meðan það er enn á vinnumarkaði, og eins er hægt að jafna lífeyrisrétti milli hjóna og sambúðarfólks.

Lagabreytingar 1. janúar

Alls er tuttugu og einn lífeyrissjóður á Íslandi en þeim hefur fækkað mjög að sögn Sólveigar. Þá eru margir þeirra hættir að taka við iðgjöldum. Reglur þessara sjóða eru mismunandi og sumir hafa val á milli nokkurra sjóða. Þá kom fram á fundinum að frá og með 1. janúar verða lagabreytingar sem hafa áhrif á tekjutengingu almannatrygginga og varða ákveðnar tegundir séreigna sem fólk er hvatt til að kynna sér hjá sínum lífeyrissjóði. Þessar breytingar hafa enginn áhrif á viðbótarlífeyrissparnað þar sem valið er um 2% eða 4% sparnað og 2% mótframlag kemur frá launagreiðanda.

Sólveig segir að fyrsta skrefið fyrir fólk sem vilji undirbúa lífeyrisárin sé að fylgjast með sínum réttindum í Lífeyrisgáttinni þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um öll þau réttindi sem fólk hefur unnið sér inni á starfsævinni í samtryggingarsjóðum. Þá er um að gera að nota reiknivélar inn á skattur.is og Tr.is til að átta sig á því hversu háum greiðslum maður geti átt von á. Þá bendir hún fólki einnig á heimasíðuna lifeyrismal.is sem Landssamtök lífeyrissjóða halda úti.