Fara í efni
Fréttir

Hertar reglur: sjáðu hvað má og hvað ekki

Hertar reglur: sjáðu hvað má og hvað ekki

Tíu manna samkomubann tekur gildi hér á landi á miðnætti um allt land og munu þær reglur gilda næstu þrjár vikur. Aðeins börn fædd 2014 og síðar eru undanskilin. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, greindi frá þessu á blaðamannafundi þar sem forsætis-, fjármála- og menntamálaráðherra komu einnig fram. Ríkisstjórnin ákvað á fundi í dag að fara í einu og öllu eftir tillögum Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis, og grípa til þessara hörðu aðgerða í ljósi þess hve smitum hefur fölgað hratt síðustu daga.

„Hópsýkingarnar að undanförnu eru allar af völdum breska afbrigðis kórónaveirunnar sem er mun meira smitandi en flest önnur afbrigði og veldur frekar alvarlegum veikindum. Sóttvarnalæknir leggur áherslu á að hertar aðgerðir taka nú til barna allt frá grunnskólaaldri þar sem sýnt þykir að breska afbrigðið veldur meiri einkennum hjá eldri börnum en önnur afbrigði veirunnar. Að öðru leyti er í meginatriðum um að ræða sömu reglur í megindráttum og tóku gildi 31. október á liðnu ári og gáfust vel til að kveða niður þriðju bylgju faraldursins hér á landi,“ segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Helstu atriði sem kynnt voru, og gilda í þrjár vikur:

 • Almenn fjöldatakmörkun miðar við tíu manns.
 • Öllum skólum nema leikskólum verður lokað frá og með morgundeginum og þar til hefðbundið páskafrí tekur við. Staðarnám er sem sagt bannað en fjarnám væntanlega mögulegt þótt það hafi ekki verið sérstaklega nefnt. Unnið verður að reglum um fyrirkomulag skólahalds að loknu páskafríi á næstu dögum. Þetta á við um grunn-, framhalds-, tónlistar- og háskóla.
 • Trú og lífsskoðunarfélög mega taka á móti 30 gestum við athafnir. Þeir skulu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri en þurfa ekki að sitja í númeruðum sætum. Gestum er skylt að nota andlitsgrímur og tryggja skal 2 metra regluna. Hámarksfjöldi í erfidrykkjum, fermingarveislum og sambærilegum viðburðum er 10 manns.
 • Sund- og baðstöðum verður lokað.
 • Heilsu- og líkamsræktarstöðvum verður lokað.
 • Íþróttir inni og úti, jafn barna og fullorðinna, sem krefjast meiri nálægðar en 2 metra eða þar sem hætta er á snertismiti, eru óheimilar.
 • Sviðslistir og sambærileg starfsemi er óheimil; leikhúsum og bíóum verður lokað.
 • Skemmtistöðum, krám og spilakassastöðum verður lokað.
 • Veitingastaðir mega hafa opið til klukkan 22.00 með hámark 20 gesti í rými. Allir skulu skráðir og fá afgreiðslu í sæti sem eru númeruð. Vínveitingar skal bera til sitjandi viðskiptavina. Heimilt er að taka á móti nýjum gestum til klukkan 21.00.
 • Verslanir mega taka á móti að hámarki 5 manns á hverja 10 fermetra, að hámarki 50 manns. Tveggja metra nándarregla og grímuskylda.
 • Ökunám og flugnám með kennara er óheimilt.
 • Hársnyrtistofur og snyrtistofur mega áfram starfa.