Næstum hitamet á Akureyri í júlí

Nýliðinn júlímánuður var sá næsthlýjasti á Akureyri frá því mælingar hófust hér í bæ 1881. Ekki þarf þó að leita langt aftur til að finna þann hlýjasta, sem var júlímánuður 2021. Núna í júlí var meðalhitinn á Akureyri 13,5 stig, sem er 2,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991-2020 og 2,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Júlímánuður 2021 var þó mun hlýrri, en þá var meðalhitinn 14,3 stig.
Almennt var óvenjulega hlýtt á landinu í júlí, sérstaklega þó á Norður- og Austurlandi, að því er fram kemur í yfirliti Veðurstofu Íslands um veðrið í mánuðinum. „Á landsvísu var þetta hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga, ásamt júlí 1933 sem var jafnhlýr. Mjög hlýtt var þ. 14. þegar hiti mældist 20 stig eða meiri á um 70% allra veðurstöðva,“ segir meðal annars í yfirlitinu.
Sólskinsstundir á Akureyri mældust 185,6 í júlímánuði, sem er 33,1 stund yfir meðallagi áranna 1991-2020. Meðalhiti fyrstu sjö mánaða ársins á Akureyri reyndist 5,3 stig, sem er 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991-2020. Þetta tímabil raðast í 3.-4. sæti yfir hlýjustu fyrstu sjö mánuði ársins á Akureyri á lista yfir 145 ára mælingar.
Metjöfnun yfir landið
Meðalhitametið yfir landið allt í júlí var jafnað, en nýliðinn júlímánuður var jafnhlýr og árið 1933. Um þetta segir í yfirliti Veðurstofunnar: „Meðalhiti í byggðum landsins var 12,0 stig og jafnar þar með fyrra met um hlýjasta júlímánuð frá 1933. Hlýjast var á Norðaustur- og Austurlandi og þar var mánuðurinn víða á meðal hlýjustu júlímánaða sem vitað er um. Mánuðurinn var t.a.m. hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga á Egilsstöðum og Hallormstað þar sem meðalhitinn var 14,2 stig á báðum stöðvum. Það er mjög óalgengt að meðalhiti eins mánaðar á Íslandi fari yfir 14 stig, en það gerðist fyrst á nokkrum veðurstöðvum í hlýindunum á Norðaustur- og Austurlandi sumarið 2021 og svo aftur nú.“
Í júlímánuði mældist hiti 20 stig eða meira einhvers staðar á landinu 28 daga. Þann 14. júlí mældist 20 stiga hiti eða meiri á um 70% allra veðurstöðva.