Myrk rómantík, þurrkuð blóm og Davíð Stefánsson

Í Hamragili í Hofi, þennan dularfulla fimmtudag, þar sem gosmóðan hylur bæinn, hefur ungur maður setið við sauma. Það er hann Guðmundur Tawan Víðisson, fatahönnuður og sumarlistamaður Akureyrar, sem býður upp á listgjörning, þar sem hann saumar þurrkuð blóm í kjól sem hann ætlar að sýna í ágúst á tískusýningu. Sýningin verður kveðja hans til Akureyrar í bili, þar sem hann heldur suður í haust til þess að hefja nám í fatahönnun við LHÍ. Gjörningurinn er frá klukkan 11-17.
Ljóðræn rómantík og náttúrusögur
„Það er rómantíkin,“ segir Guðmundur, aðspurður hver kveikjan að verkefninu sé. „Ég er búinn að vera að safna blómum síðan í fyrrasumar til þess að nota. Í leiðinni hef ég rannsakað blómin, kafað ofan í sögur og hjátrú tengdar þeim. Það er búið að vera mjög fróðlegt.“ Kjóllinn blómlegi verður sýndur á viðburði Guðmundar 16. ágúst, Dýrð í Fagraskógi, þar sem innblásturinn er Hjarta Akureyrar, ljóðræn rómantík Davíðs Stefánssonar skálds og náttúrusögur Jóns Árnasonar.
Þemað er mjög náttúrutengt, myrk rómantík í anda Davíðs
„Ég er að handsauma eitt og eitt blóm á kjólinn, með bómullar- og hörgarni,“ segir Guðmundur. „Rósirnar fékk ég hjá Býflugunni og blómið, en hin tíndi ég sjálfur úti í náttúrunni. Gleym-mér-ei, blágresi, brennisóley, vatnsberi, bleik lúpína svo fátt eitt sé nefnt.“ Uppáhalds blóm Guðmundar er blóðberg, en það verður í lykilhlutverki á tískusýningunni í prjónuðum kjól með miklum handsaumi.
Þau eru ófá sporin, sem nál Guðmundar mun taka í dag. Mynd: RH
Skapandi skrif undir áhrifum Davíðs
Auk þess að bjóða upp á lifandi gjörninginn, er Guðmundur með innrömmuð ljóð og teikningar til sýnis, auk skartgripakjólsins sem tengist ljóðrænni sögu eftir hann sjálfan. „Sagan fjallar um hrafn sem safnar skarti,“ segir Guðmundur. „Hann fær svo mikla þráhyggju fyrir að safna skartinu að hann hættir að finna sér mat og er svo upptekinn af því að vernda hreiðrið sitt, að hann deyr þar innan um allt skartið.“
„Eftir að ég fór að lesa Davíð Stefánsson, ákvað ég að byrja að skrifa ljóð sem tengjast því sem ég er að gera í fatahönnunni,“ segir Guðmundur. „Þemað er mjög náttúrutengt, myrk rómantík í anda Davíðs. Ég fjalla um líf og dauða, blómin, hjörtun, fuglana.“
Skartgripakjóllinn. Allt sem er á honum hefur Guðmundur safnað sjálfur eða fengið að gjöf frá vinum og vandamönnum. Mynd: RH
Rauða hjartað. Mynd: RH
Tískusýningin verður ævintýri
Einnig er til sýnis þessi heimatilbúna gína, úr vírneti. „Hjartað er í raun grunnurinn. Ástríðan fyrir verkefninu. Hérna byrjaði þetta allt,“ segir Guðmundur. „Hjartað er tákn bæjarins, hjartað kom svo fram í sögunum og ljóðunum sem ég las og safnaði í leit minni. Dýrahjörtu í gömlum göldrum, til dæmis. Ég hef svo verið að sauma jakkaföt og kápur líka, sem líkja svolítið eftir fuglum. Þessi klæðnaður verður í tískusýningunni í ágúst. Hún verður svolítið eins og ævintýri. Það verður söguþráður.“
Suður í haust, eins og farfuglarnir
„Mig langar að ala upp börnin mín hérna, eins og ég ólst hér upp sjálfur,“ segir Guðmundur, aðspurður um það hvort hann sjái fyrir sér að koma aftur heim eftir námið. „Núna langar mig að breikka sjóndeildarhringinn og prófa að búa í Reykjavík. Ég er mjög spenntur að kynnast nýju fólki og fara í námið.“ Guðmundur var í Naustaskóla áður en hann fór í MA í tvö og hálft ár. Þá færði hann sig yfir í textílbraut VMA og fann sína hillu þar í fatahönnun. „Ég hef alltaf haft áhuga á klæðnaði, byrjaði að gera föt á sjálfan mig fyrst, og svo þróaðist þessi áhugi. Núna kemst ekkert annað að og framtíð mín er í fatahönnun,“ segir hann að lokum.