Fara í efni
Mannlíf

Múgur og margmenni þrammar að Fálkafelli

Heiðrún Jóhannsdóttir og Halldóra Magnúsdóttir, göngugarpar. Mynd: Facebook

„Þetta gerðist nú bara óvart!,“ segir Heiðrún Jóhannsdóttir, stofnandi Facebook hópsins 100 ferðir í Fálkafell, sem hefur náð ótrúlegum vinsældum á stuttum tíma. „Ég er sjálf útivistarmanneskja, hef hlaupið mikið til dæmis, en vegna heilsuleysis af ýmsu tagi hef ég nokkrum sinnum lent á byrjunarreit og oft erfitt að koma sér aftur af stað,“ segir Heiðrún. Síðast fór hún í aðgerð í desember og segist hafa velt mikið fyrir sér hvort og hvernig hún ætti að koma sér í gang aftur. 

„Ég var frekar niðurdregin,“ segir Heiðrún. „Þá sá ég fyrir tilviljun Facebook hópinn 100 Úlfarsfell, þar sem hvatt er til þess að ná hundrað ferðum þangað upp. Mér fannst þetta sniðugt, að setja sér svona markmið á skemmtilegan hátt, til þess að ná sér í gang.“ Upphaflega stefndi Heiðrún á að fara fimmtíu ferðir. „Ég heyrði í Halldóru Magnúsdóttur, vinkonu minni, og bar þessa hugmynd undir hana. Hún var aldeilis til í að fara að brölta þetta með mér. Það kom svo fljótt í ljós að það gekk ótrúlega vel og við erum nú þegar komnar í 37 ferðir.“

Þegar þú ert hætt að geta talið ferðirnar á fingrum beggja handa, þarf að finna lausn á því! - Mynd: Facebook

Ég hafði samband við Kjartan Long, manninn sem stendur fyrir Úlfarsfells síðunni, svona svo að ég væri ekki bara að herma án þess að spyrja. Honum fannst framtakið frábært þannig að ég bara kýldi á síðu!

Fyrsta ferðin var farin 13. janúar, en í lok mars var Heiðrún farin að taka eftir því að fólk var að sýna dugnaði þeirra í fjallabröltinu áhuga á Facebook, og langaði ef til vill að prófa líka. „Þá ákváðum við bara að gera síðu og skella markmiðinu í 100!,“ segir Heiðrún. „Ég hafði samband við Kjartan Long, manninn sem stendur fyrir Úlfarsfells síðunni, svona svo að ég væri ekki bara að herma án þess að spyrja. Honum fannst framtakið frábært þannig að ég bara kýldi á síðu!“ Í dag eru meðlimir síðunnar komnir yfir 300 talsins. 


Það er mikið líf og fjör í Facebook hópnum '100 ferðir í Fálkafell" - Skjáskot af Facebook

Stemningin í hópnum er skemmtileg, en fólk er duglegt að skrásetja ferðirnar sínar með myndum og jafnvel skemmtilegri ferðasögu. „Markmiðið er aðallega að hvetja fólk til þess að hreyfa sig og njóta náttúrunnar sem við búum við hérna í nærumhverfinu,“ segir Heiðrún. „Kannski verður þetta svo kveikjan að frekari útivistarævintýrum fyrir fólk.“ Heiðrún segist hafa verið hálf hissa yfir því hvað margir meðlimir eru komnir í hópinn og hvað hann óx hratt. „Þetta eru ekkert bara mínir vinir, alls ekki!“ hlær Heiðrún, „Bara alls konar fólk! Sumir eru að rölta bara eina ferð og svo er þvílíki krafturinn í sumum, og allt þarna á milli.“

„Það er að skapast líka svo skemmtileg stemning,“ segir Heiðrún. „Svo margir að ganga upp og niður og allir heilsast. Fólk er líka að fara ólíkar leiðir upp og niður og deila hugmyndum um það.“ Það er ekki nema klukkutíma gangur í rólegu tempói upp í Fálkafell, en Heiðrún segir að færið hafi eiginlega verið skárst fyrst, í janúar og febrúar. „Það snjóaði svo mikið í mars og apríl og svo er farið að bráðna núna, drullan komin!“ 

Göngugarparnir í hópnum eru ekkert að býsnast yfir veðri og færð. Þessa mynd settir Egill Snær Þorsteinsson inn í hópinn. Mynd: Facebook

Heiðrún og Halldóra eru ekki bara að labba upp og niður, heldur setja þær sér millimarkmið, um að ná ákveðnum fjölda fyrir ákveðinn tíma. „Lokamarkmiðið er náttúrulega 100 ferðir fyrir árslok. Við ætlum okkur að vera komnar 50 ferðir fyrir 13. júní, en þá verður aldeilis haldið upp á það!“ Vinkonurnar hafa haft það fyrir sið að halda upp á hvern tug, rölta jafnvel upp með óáfengt freyðivín og skála, eða eitthvað annað góðgæti til þess að verðlauna sig.

Það var einhver pæling að hafa jafnvel eitthvað Pálínuboð eða eitthvað slíkt uppi í fjalli, sem mér finnst bara frábær hugmynd

„Stundum reynum við að breyta aðeins til,“ segir Heiðrún. „Um daginn tókum við til dæmis með okkur þoturassa uppeftir og renndum okkur niður!“ Ýmsar hugmyndir hafa líka fæðst í kring um hópinn, en einhverjir hafa stungið upp á því að hafa einhverja hópferð jafnvel í haust. „Það var einhver pæling að hafa jafnvel eitthvað Pálínuboð eða eitthvað slíkt uppi í fjalli, sem mér finnst bara frábær hugmynd, hver veit nema það verði að veruleika!“ segir Heiðrún hress í bragði að lokum. 

Hér bregða þessar hressu vinkonur á leik í einni af sínum 37 ferðum hingað til. Mynd: Facebook