Fara í efni
Menning

Mjög ósanngjörn skipting fjár til menningarmála

Úr sýningu Leikfélags Akureyrar á söngleiknum Benedikt búálfi sem nú er á fjölunum. Ljósmynd: Auðunn Níelsson.

Bæjarfulltrúar á Akureyri eru ósáttir við framlag ríkisins til menningarmála í sveitarfélaginu og hafa lengi verið. Endurnýjaður menningarsamningur verður að líkindum undirritaður fljótlega og var mikilli óánægju með hann lýst á fundi bæjarstjórnar í vikunni; í raun væri vitlaust gefið og af gömlum vana.

Ríkið greiðir um fjóra milljarða til menningarmála á þess vegum á höfuðborgarsvæðinu; til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Hörpu, Þjóðleikhússins og Listasafns Íslands. Akureyrarbær hefur fengið 5% af þeirri upphæð sem ríkið greiðir syðra en lagði til að framlagið yrði tvöfaldað.

10% landsmanna á áhrifasvæði Akureyrar

Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar og formaður stjórnar Akureyrarstofu, sem m.a. fer með menningarmál í sveitarfélaginu, greindi frá því á fundi bæjarstjórnar að bærinn hefði lagt til að tekið yrði upp nýtt viðmið; miðað yrði við 10% af framlögum ríkisins til eigin verkefna á sömu sviðum á höfuðborgarsvæðinu, þeirra sem nefnd voru að ofan, vegna þess um um það bil 10% landsmanna byggi á áætluðu áhrifasvæði Akureyrar. Eðlilegt væri, þegar metin væru framlög til atvinnustarfsemi í listum, að miða við framlög til sambærilegs reksturs á höfuðborgarsvæðinu.

Viðræður við mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa staðið síðan í haust um endurnýjaðan menningarsamnings, vegna þeirra verkefna sem Menningarfélag Akureyrar hefur með höndum; menningarhússins Hofs, Leikfélags Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, auk Listasafnsins á Akureyri.

Hilda tók þannig til orða að ekki væri útlit fyrir að næðist að semja um hin nýju viðmið í þessari atrennu, en engu að síður væri um hækkun að ræða. Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, benti á að hækkunin frá 2015 væru tæpar 100 milljónir, þar af 60 milljónir frá 2017, „sem er gríðarleg hækkun sem við eigum að fagna vel að mínu mati,“ sagði Ingibjörg.

Engin sanngirni

Halla Björk Reynisdóttir, bæjarfulltrúi L-listans og forseti bæjarstjórnar, og sjálfstæðismennirnir Gunnar Gíslason og Eva Hrund Einarsdóttir, voru á einu máli um að engin sanngirni væri í menningarsamningnum. Gunnar tók dæmi og sagði nokk sama hvernig væri reiknað og við hve stór svæði væri miðað, bæði á suðvesturhorninu og hér fyrir norðan og austan; framlag ríkisins á hvern íbúa væri miklum mun lægra hér. „Mér finnst engin sanngirni í þessu,“ sagði Gunnar.

Gunnar sagði að framlag til Akureyrar vera 230 milljónir en ætti að vera 400 milljónir ef sanngirni væri gætt. Skilja mátti bæjarfulltrúa þannig að skiptingin væri samkvæmt gömlum vana og augljóst að endurskoða þyrfti skiptinguna; hugsa málið upp á nýtt.

Nefnt var á fundinum að hlutverk stofnana ríkisins, til dæmis Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómveitar Íslands, væri að sinna öllu landinu en sú væri ekki raunin. Menningarstofnanir á Akureyri sinntu í raun því hlutverki ríkisins að miklu leyti á Norður- og Austurlandi.

Alltaf sama sagan ...

Halla Björk sagði það hafa verið baráttumál bæjaryfirvalda síðan hún hóf afskipti af stjórnmálum að fá hærra framlag frá ríkinu til menningarmála. Halla var fyrst kosin í bæjarstjórn 2010. Hún sagði hvert mannsbarn sjá að engin sanngirni væri í skiptingunni, þótt sannarlega mætti þakka menntamálaráðherra þá krónuhækkun sem orðið hefði á kjörtímabilinu.

„Menningarstarfsemi á Akureyri hefur eflst gríðarlega mikið á undanförnum árum. Þetta er orðin töluvert stór atvinnugrein á svæðinu,“ sagði Gunnar Gíslason. „Það er gríðarleg ósanngirni í þessari skiptingu og við hljótum að gera athugasemdir við þetta, við hljótum að fara fram á að þetta verði endurskoðað. En þetta er alltaf sama sagan – ef við erum úti á landi þá skuluð þið berjast fyrir hverri einustu krónu, hverjum einasta aur. Það er alveg sama hver málaflokkurinn er, það er alveg sama hverjir eru við stjórnvölinn. Það skiptir engu máli. Þetta skal alltaf vera svona.“