Mislagðar kylfur og tap hjá SA Víkingum

SA Víkingar töpuðu í gærkvöld fyrir liði SR þegar liðin mættust í síðasta leik forkeppni Toppdeildar karla í íshokkí í Skautahöllinni á Akureyri. Gestnir skoruðu sex mörk gegn fjórum mörkum heimamanna. Andri Már Mikaelsson skoraði tvö mörk fyrir SA og Akureyringurinn Alex Máni Sveinsson tvö fyrir SR.
SA komst yfir með marki Andra Más Mikaelssonar eftir um fjórar mínútur, en gestirnir svöruðu með tveimur mörkum í fyrstu lotunni.
Það var ekki margt sem gladdi augað í annarri lotunni, svona lengst af. SA Víkingar sóttu meira, en þeim voru oft mislagðar kylfur inni í varnarsvæði SR og ekki vildi pökkurinn í netið. SR-ingar náðu hins vegar nokkrum hættulegum skyndisóknum, en lengst af leit út fyrir markaleysi í annarri lotunni.
Eftir árekstur leikmanns SA og markvarðar SR seint í annarri lotunni hitnaði aðeins í kolunum og fengu tveir leikmenn úr hvoru liði refsingu. Mögulega kveikti það í liðunum því á lokamínútunum skoruðu bæði liðin. SR náði tveggja marka forystu, en Magnús Sigurólason minnkaði muninn í 2-3 þegar innan við tvær mínútur voru eftir af lotunni, með sínu fyrsta marki í meistaraflokki.
Þriðja lotan var öllu líflegri. Andri Már skoraði sitt annað mark og jafnaði í 3-3, en gestirnir svöruðu með marki nokkrum mínútum síðar. Marek Vybostok jafnaði í 4-4 þegar um níu mínútur voru eftir af leiknum, en SR-ingar svöruðu með marki innan við mínútu síðar og náðu svo tveggja marka forystu þegar þrjár og hálf mínúta lifðu leiks. Þrátt fyrir ákafar tilraunir tókst SA ekki að minnka muninn og SR fór því með sigur af hólmi. Heimamenn sóttu þó heldur meira, eins og meðal annars má sjá á tölum yfir fjölda skota þar sem SA átti 47 skot á mark, en SR 35.
SA - SR 4-6 (1-2, 1-1, 2-3)
SA
Mörk/stoðsendingar: Andri Már Mikaelsson 2/0, Marek Vybostok 1/0, Magnús Sigurólason 1/0, Unnar Hafberg Rúnarsson 0/2, Elvar Skúlason 0/1, Arnar Kristjánsson 0/1, Heiðar Gauti Jóhannsson 0/1.
Varin skot: Jakob Jóhannesson 29 (82,9%).
Refsimínútur: 12.
SR
Mörk/stoðsendingar: Alex Máni Sveinsson 2/1, Kári Arnarsson 1/1, Hákon Magnússon 1/1, Gunnlaugur Þorsteinsson 1/1, Denny Deanesi 1/0, Haukur Karvelsson 0/3, Styrmir Maack 0/2, Heiðar Örn Kristveigarson 0/1.
Varin skot: Jóhann Björgvin Ragnarsson 43 (91,5%).
Refsimínútur: 18.
Leikurinn í gær var sá síðasti í forkeppni Toppdeildar karla og skipti ekki máli upp á stigasöfnun í framhaldinu að gera því nú tekur við ný, tvískipt keppni þar sem meistaraflokksliðin þrjú, SA, SR og Fjölnir, halda áfram í A-hlutanum, en ungmennaliðin Jötnar og Húnar mætast 12 sinnum í B-hlutanum.
Skautar Ingvars af hillunni í annað sinn
Það hefur eflaust glatt hokkíunnendur í tveimur síðustu leikjum SA Víkinga að sjá Ingvar Þór Jónsson taka fram skautana að nýju. Hann hefur sennilega lagt skautana tvisvar á hilluna, en nú er hann snúinn aftur á svellið enda í toppformi og hokinn af reynslu og getur án vafa gagnast liðinu áfram, bæði sem öflugur leikmaður og miðlað áfram af reynslu sinni til hinna yngri.
Ingvar Þór Jónsson og Björn Már Jakobsson lyfta Íslandsbikarnum 2016. Björn Már er hættur á skautunum, en er annar aðstoðarþjálfara liðsins. Ingvar Þór er snúinn aftur á svellið eftir að hafa lagt skautana á hilluna. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Ingvar Þór verður í leikmannahópi SA sem heldur til Vilnius í Litháen í næstu viku til þátttöku í Evrópukeppni, Continental Cup.
SA fékk í gær leikheimild fyrir hinn bandaríska Harrison Nagel sem félagið tilkynnti um fyrir um tæpum mánuði. Hann lék þó ekki með liðinu í gær enda ekki kominn til landsins. Hann verður hins vegar með í för í Evrópuævintýri liðsins um aðra helgi.
Leikurinn var í beinu streymi á YouTube-rás ÍHÍ og er hægt að horfa á hann í spilaranum hér að neðan.